02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Sigurður Stefánsson:

Eg tek aftur breyt.till. mína og felst á breyt.till. nefndarinnar við 7. gr. En aftur á móti get eg alls ekki fallist á breyt.till. nefndarinnar við 1. gr. Með þeim er kipt burtu úr frumv. því sem er mergurinn málsins. 1. breyt.till. nefndarinnar fer fram á það, að ekki megi kippa upp birkirunnum og birkirótum í skógum og kjörrum. Að minni skoðun má aldrei kippa upp runnum og rótum. Breytingin að skógræktarstjóra sé »heimilt að banna að rífa fjalldrapa og víði« frá því er í frumv. stendur, að ekki megi rífa, álít eg sé til stórra skemda. Með henni er dregið úr ákvæðum er fara í þá átt, að vernda landið gegn skemdum. Vegna víðáttu landsins yrði það ógjörningur fyrir skógræktarstjóra að fara nógu víða og oft um landið til að banna. Og þar sem ekki verður bannað að rífa fjalldrapa, verður hann rifinn eftir sem áður, og ekki auðið að sækja menn til sekta. Mér blöskrar að sjá hvernig víða er farið með fjalldrapann; hvernig menn eyðileggja landið með því að rífa hann. Að mínu áliti ætti að setja sem skilyrðislausast bann gegn fjalldrapa-rifi.

Eg hefi heyrt menn segja, að það sé saklaust að kippa upp fjalldrapa í mýrlendi. En mín skoðun er, að það sé aldrei saklaust að rífa nokkura hríslu. Miklu nær væri að höggva þær, þá geta þær þó vaxið aftur. Víða gæti á slíkum stöðum verið vísir til skóga, ef þurkað væri.

Hentugasta aðferðin í þessu máli væri auðvitað sú, að gjörðar væri samþyktir eftir staðháttum í hverri sveit. En lítill áhugi hefir sýnst á slíkum samþyktum meðal landsmanna.

Sú bót fylgir lögum þessum, að þeir menn, sem áhuga hafa á málinu, mundu geta kært þá sem brjóta. Væru lögin nógu skýr og hörð, mundu einstaka fjalldrapa-níðingar geta komist undir ákæru og orðið sóttir til sekta. Eg tel það fullkomlega saknæmt að fara svo með landið sem þeir gjöra.

Eg legg því eindregið í móti breyttill. nefndarinnar við 1. gr.