02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

14. mál, meðferð skóga, kjarrs o. fl.

Lárus H. Bjarnason:

Hæstv. ráðherra hefir í rauninni sagt það sem eg vildi sagt hafa, en úr því að eg hafði beðið mér hljóðs og er staðinn upp, vil eg þó sérstaklega vara háttv. þingdm. við að sleppa orðinu »einkum« úr 7. gr. Ef því er slept, breytir það ekki að eins greininni, heldur öllum lögunum. Það má þá beita skóga og kjarr hlífðarlaust að kalla má. Það má þá beita þá á öllum tíma árs, enda á vorin og þegar snjór liggur á jörð. Að eins á, þegar svo á stendur, að leitast við að gjöra sem minst að, og sér hver maður, að í því er ekkert aðhald. Það ríður svo mikið á orðinu »einkum«, að mér er sama um frumv., ef því er slept. Annars álít eg allar breyt.till. nefndarinnar fremur til skemda en hitt. Og hvað viðvíkur breyt.till. háttv. 2. þm. G.-K., þá skil eg ekki hvers vegna seinni partur 7. gr. á að lifa ef fyrri partinum er slept. Það væri ekki ólíkt því að ætla manni að ganga, eftir að af honum hefðu verið teknir fæturnir.