22.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Það hafa komið fram nokkrar breytingartillögur, sem nefndin hefir farið yfir, þótt hún hafi haft mjög nauman tíma.

Það er þá fyrst á þgskj. 563 br.till. við 12. gr., að á eftir 4. lið komi nýr liður, sem er styrkur til Guðmundar T. Hallgrímssonar læknis til þess að veita fátækum konum ókeypis læknishjálp í barnsnauð og öðrum kvensjúkdómum, sem og til að veita læknaskólastúdentum tilsögn í þessum greinum. Nefndin játar að vísu, að hér sé um þörf að ræða, sem vert væri að bæta úr, en af sparnaðarástæðum sér hún sér þó ekki fært að fallast á tillöguna, auk þess ber og þess að gæta, að í Reykjavík eru einmitt margir læknar, og því hægast að ná í lækni þar. Nefndin er því eins og eg sagði á móti þessum styrk að þessu sinni, enda þótt hún teldi æskilegt að verða við beiðni þessari, væri nægilegt fé fyrir hendi.

Þá er breytingartillaga við 13. gr. A. 1. b. 1. um að hækka fjárveitinguna til póstafgreiðslumannanna í Reykjavik úr 4900 kr. upp í 5000 kr. Eg hefi heyrt sagt, að þessar 100 kr. væru ætlaðar til launaviðbótar handa einum af póstafgreiðslumönnum þeim, sem nú eru á pósthúsinu, en þar sem fjárveiting þessi þegar hefir verið hækkuð um 500 kr. í neðri deild frá því sem hún var í stjórnarfrumvarpinu, og engin umsögn liggur fyrir frá póstmeistara, þá sýnist nefndinni ekki ástæða til þess að fallast á tillöguna. Á sama þgskj. er breyt.till. við 13. gr. B. III. 6. að bætt verði við nýjum lið sem er 3000 kr. til viðgerðar og framhalds þjóðveginum úr Hrútafjarðarbotni í Gilsfjarðarbotn, en í þess stað á að falla burt 13. B. XII., þar sem 2000 kr. eru veittar til sama vegar með því skilyrði, að jafnmiklu fé sé varið til vegarins annarsstaðar frá. Breyt.till. fer því bæði fram á hækkun og að fella burt skilyrðið um fjárframlag annarsstaðar frá Nefndinni var það ekki kunnugt við 2. umræðu, að hér væri um þjóðveg að ræða, en flutningsmaður hefir fært sterkar líkur að því, að þjóðvegurinn einmitt liggi þessa leið, og getur nefndin því, eða að minsta kosti meiri hluti hennar, eftir atvikum fallist á tillöguna. Þá er á sama þgskj. farið fram á 4000 kr. fjárveiting til Garðars Gíslasonar til mótorvagnskaupa, er gjöra skal tilraun með á akvegunum, er liggja út frá Reykjavík. Fjárveiting þessi var samþykt hér í deildinni á fjáraukalögunum fyrir 1908—1909, en hefir nú verið feld burt af þeim í háttv. Nd. Stafaði það mest af því, að menn höfðu ekki kynt sér alla málavöxtu; mér er kunnugt um, að fjárveitingin hefði líklega fengið að standa, ef mönnum þar í deildinni hefði alment verið ljóst, hvaða skilyrðum hún var bundin. Hér er ekki um stór útgjöld að ræða, og styrkurinn verður endurborgaður, ef tilraunin mishepnast, enda treysti eg stjórninni til þess að gera hinn væntanlega samning við Garðar Gíslason þannig úr garði, að hag landsjóðs sé borgið, hvernig sem fer með tilraun þessa. Meiri hluti nefndarinnar telur og tilraun þessa geta haft mikla þýðingu fyrir samgöngur vorar, og leggur því til að tillagan sé samþykt.

Þá flytur háttv. 6. kgk. þm. nokkrar breyttill. á þgskj. 556. Sú fyrsta fer fram á að hækka fjárveitinguna til þess að gefa út kenslubækur handa hinum almenna mentaskóla, bæði það sem borgað er fyrir hverja einstaka örk úr 30 kr. upp í 45 kr., og summuna í heild sinni úr 600 kr. upp í 2000 kr. Nefndin er á einu máli um, að nauðsyn sé á að hækka þessa fjárveiting, einkum þegar þess er gætt, að samþykt hefir verið hér í deildinni tillaga, er vonandi verður líka samþykt í hinni deildinni, um að stjórnin skipi nefnd til þess að annast útgáfu slíkra kennslubóka. Hins vegar áleit nefndin, að þar sem þessar 600 kr., er veittar hafa verið síðustu árin á fjárlögunum í þessu skyni, aldrei hafa verið notaðar allar, þá myndi nægja að veita að þessu sinni l000 kr. hvort árið, og vonar hún að hinn háttv. flutningsm. geti felt sig við þá miðlun, sem breyt.till. hennar á þgskj. 571 gengur út á.

Þá er önnur breyt.tillagan á þgskj. 556 um að lækka fjárveitinguna til þess að rita og gefa út ítarlegt rit um þjóðréttarstöðu Íslands um helming, úr 5000 kr. niður í 2500 kr. Nefndin er samdóma hinum háttv. flutningsm. um að rétt sé að lækka þessa fjárveiting, því að höf. ritsins getur fengið verðlaun af öðrum sjóði, verði ritið á annað borð gott, og mun þá 2500 kr. fjárveiting úr landsjóði vera nægileg.

Á sama þgskj. er enn breyt.till. um að hækka fjárveitinguna til Guðmundar skálds Friðjónssonar upp í 600 kr. Um þessa tillögu hefir ekki verið gengið til atkvæða í nefndinni, og nefndarmenn hafa því frjálsar hendur. Annars eru þessir skáldstyrkir ákaflega viðkvæmt mál, en eg er heldur á móti þessari hækkun, enda þótt eg verði að játa, að ástæða væri til hennar í samanburði við það, hvað veitt er til annara skálda. En eg er algjörlega á móti öllum þess háttar bitlingum. Þegar maður verður að klípa af nauðsynlegustu fjárveitingum til framfarafyrirtækja, sýnist mér ekki ástæða til að vera að punta upp með mörgum skáldstyrkjum og öðrum þess háttar bitlingum. Eg skal ekki lasta það að styrkja skáld, ef nóg fé er fyrir hendi, en eg veit ekki hvar það lendir, ef hver maður, sem gefur út ljóðakver, á að fá laun úr landsjóði, því að margir eru hagorðir hér á landi.

4. breyt.tillagan á þgskj. 556 fer fram á að veita einhverjum kand. phil. 500 kr. hvort árið, til þess að ljúka námi við fjöllistaskólann í Kaupmannahöfn. Nefndin er á móti þessari tillögu; hún sér ekki að landinu sé nein brýn nauðsyn á að veita þetta fé. Þessir styrkir koma stundum landinu að litlu gagni; mennirnir, sem styrktir hafa verið, hætta oft í miðjum kliðum eða gefast illa á annan hátt. Auk þess höfum vér enga tryggingu fyrir, að þeir beiti þekkingu sinni í þarfir þessa lands, þó þeir ljúki námi, því að sumir þeirra manna, er styrktir hafa verið til náms af landsfé, hafa að afloknu námi sezt að í útlöndum. En það er eins með þessa menn og skáldin; telji einhver sig hafa hæfileika í einhverja átt, þá er sjálfsagt að hlaupa strax til fjárveitingarvaldsins og biðja um styrk.

Þá er breyt.till. við 15. gr. á þgskj. 539 um 500 kr. styrk til Lárusar kennara Bjarnasonar, til þess að ganga á kennaraháskóla. Það er nú víst ekki háttv. 5. kgk. þm., þótt maðurinn sé honum samnefndur að mestu leyti — »H«-ið vantar reyndar —, heldur barnakennari í Hafnarfirði, sem er ákaflega gáfaður náttúrlega, en getur þó ómögulega sagt börnum til svo að gagni komi, nema hann fari utan til náms

Þá er enn einn skáldstyrkurinn á þskj 564. Þar er farið fram á styrk til Jóhanns Sigurjónssonar, 1000 kr. fyrra árið. Mér vitanlega er þessi maður að mestu leyti danskur rithöfundur og hefir samið flest á dönsku. Reyndar hefi eg nýlega séð leikrit eftir hann á íslenzku, en að því er eg bezt veit er það þýtt úr dönsku, hvort sem aðrir hafa þýtt það eða hann sjálfur. Nú, maðurinn er praktiskur maður, hann fær meira fyrir rit sín með því að gefa þau út á dönsku, og við því er ekkert að segja; en mér finst ekki þörf á því fyrir okkur að fara að seilast til annarra landa með skáldstyrki, þegar ekki er meiri hörgull á umsækjendum um slíka styrki hér heima, en nú er. Nefndin leggur því eindregið á móti þessari tillögu.

Þá er breyt.till. á þskj. 548 frá háttv. 1 þm. Akureyrar. Hún fer fram á 500 kr. styrk hvort árið til Þorkels Þorkelssonar kennara til hverarannsókna. Þessi tillaga heldur sér þó við jörðina; en þó nefndin kannist við, að slíkar rannsóknir mundu hafa mikla vísindalega þýðingu, þá álítur hún þó ekki að svo mjög bráðliggi á þeim, að þær geti ekki beðið betri tíma.

Þá eru tvær breyt.till. frá hæstv. ráðherra á þskj. 570. Þær fara fram á hækkun tveggja fjárveitinga, til landskjalasafnsins og forngripasafnsins. Í frumvarpi stjórnarinnar voru 1000 kr. ætlaðar landskjalasafninu, til að binda inn og búa um skjöl og til aðstoðar. Þessa fjárveitingu hækkaði Nd. upp í 1200 kr., en sá ekki ástæðu til að fara hærra. Nú leggur hæstv. ráðherra til að þetta sé hækkað enn upp í 1600 kr. hvort árið. Nefndin hefir algjörlega óbundnar hendur í þessu máli, en eg fyrir mitt leyti vil halda mér við það sem Nd. samþykti. Og sama segi eg um hina breyt.till. Hún fer fram á það, að 600 kr. fjárveiting til fomgripasafnsins, til aðstoðar, eftir reikningi, sem sett var inn í Nd., en ekki var í stjórnarfrv., sé hækkuð upp í 800 kr. hvort árið. Eg vil ógjarnan hækka það sem búið er að samþykkja í gangi fjárlaganna í Nd. En annars er atkvæði nefndarinnar óbundið, að því er þessa tillögu snertir.

Þá liggja ekki fleiri breyt.till. fyrir, en eg skal geta þess, að nefndin á von á tveim breyt.till., sem sendar voru í prentsmiðjuna rétt á undan fundi, og býst eg við að þær komi bráðlega.