20.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

16. mál, aðflutningsbann

Sigurður Hjörleifsson:

Það er sennilega of lítið sagt, að segja um þetta mál, að það hafi fengið einna beztan undirbúning þeirra mála, sem komið hafa fram fyrir alþingi; því að eg er sannfærður um, að aldrei hefir mál legið betur undirbúið fyrir þinginu. Þetta mál hefir verið á dagskrá þjóðarinnar í marga áratugi, — ekki eingöngu á dagskrá hjá kjósendum, heldur hjá allri þjóðinni.

Ætti að telja upp allar þær ástæður, sem bornar hafa verið fram með og móti þessu máli, þá er eg viss um að sá tími, sem eftir er þingsins, mundi ekki endast til þess.

Eins og kunnugt er, er þetta eina málið, sem hefir verið borið undir atkvæði þjóðarinnar — lagt undir dóm hennar. Og allir vita hvernig fór. Þjóðin hefir kveðið upp sinn dóm, og nú er það hlutverk löggjafarvaldsins að fullnægja dóminum.

Eg skal ekki fara að rekja það nú við þessa umr., hvílíkt stórkostlegt fjármál hér sé um að ræða, enda er þjóðin orðin sannfærð um það atriði; en þjóðin er líka orðin sannfærð um hitt, að hér sé að ræða um stærsta heilbrigðis- og siðferðismál sitt, sem ekki er að eins rétt að taka tillit til, heldur líka skylda.

Eg skal svo ekki fara neitt út í sérstakar greinar frumvarpsins, en að eins leyfa mér að benda á, að eg álít óþarft að skipa nefnd í þetta mál. Eg lít svo á, að réttast sé að taka málið eins og það liggur fyrir. Auðvitað má gera á því smábreytingar, því sé farið að breyta því til muna, er mjög óvíst að það komist frá þessu þingi.

Eg vona því að háttv. deild láti málið fara til 2. umr. án nefndarkosningar, og sýni frv. að öðru leyti velvild sína.