20.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

16. mál, aðflutningsbann

Lárus H. Bjarnason:

Það er satt, að þetta mál hefir fengið töluvert góðan undirbúning. En það er svo með þetta mál sem önnur, að það má líta á það frá tveim hliðum, en undirbúningurinn hefir óneitanlega verið nokkuð einhliða. Auðvitað er það eins mikið að kenna andstæðingum málsins, eins og þeim, sem barist hafa fyrir því. Þeir hafa haft tíma og tækifæri til að láta heyra til sín, en hafa ekki gert það neitt sviplíkt.

Málið snýst ekki að eins um það, hvort áfengi skuli leyft í landinu eða ekki. Það snýst líka um hitt, á hvern hátt eigi að koma fram þeirri hugsjón, að forða mönnum frá skaðsemi áfengisins. Eg er hlyntur hugsun frumvarpsins. En eg er ekki við því búinn, að greiða atkvæði með frumvarpinu eða móti því, eins og það nú er. Þar kemur margt til athugunar. Það snertir bæði persónulegt frelsi manna og atvinnufrelsi. Og það snertir líka fjárhag landsjóðs bæði beint og óbeint. Beint að því leyti, sem það tekur stærsta spóninn úr aski landsjóðs, og óbeint að því leyti sem þeir menn, er vínsöluleyfi hafa, mundu ef til vill hafa skaðabótakröfu á hendur landsjóði fyrir atvinnumissi. Þegar litið er á alt þetta, sýnist full ástæða til að athuga málið í nefnd áður en því verður ráðið til lykta. Meðferð málsins í neðri deild gefur og enn frekari ástæðu til þess. Þar kom fram fjöldi af breytingartillögum og voru mjög skiftar skoðanir manna á málinu.

Sem vinur málsins vil eg leggja það til, að það verði sett í nefnd. Enda sé eg ekkert því til fyrirstöðu. Hæstv. ráðherra gat þess að vísu, að hann óskaði að þinginu yrði flýtt. En hann gat þess jafnframt, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að þingtíminn yrði lengdur til mánaðamóta. Og hann gat þess ennfremur, að hann hefði vald til að framlengja hann enn meir upp á sitt eindæmi, ef þurfa þætti. Eg skal líka geta þess, að þó ekki væri þetta mál, þyrfti sjálfsagt að lengja þingið talsvert alt að einu, vegna annara mála. Það er t. d. nýbúið að útbýta tveimur stórum frumvörpum, sem hljóta að taka langan tíma.

Eg fer ekki fleiri orðum um þetta, en lýsi því yfir, að eg, sem hlyntur málinu, mæli með 5 manna nefnd.