20.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

16. mál, aðflutningsbann

Júlíus Havsteen:

Eg ætla að eins að gera athugasemd við ræðu háttv. þm. Ak., að því er snertir altarisgöngur. Hann lagði áherzlu á, að biskup landsins hlyti að vita miklu betur en eg um það atriði. Það getur vel verið, að hann ætti að vita betur. En því meiri furða er, að hann skuli ekki vita það sem hvert fermt barn á landinu veit, að vín heyrir altarissakraraentinu til. »Síðan tók hann vínið«, stendur þar.

Háttv. þm. V.-Ísf. kvað óþarfa að setja málið í nefnd, af því að það hafi verið rætt vel í neðri deild. Þetta þykir mér harla merkileg ástæða. Eg veit ekki betur en við höfum nóg að gera hér í deildinni, og höfum ekki tíma til að hanga inni í neðri deild, til þess að fylgjast með umræðum þar.

Það er vanalegt að stórmál séu rædd í nefnd, og það er ekkert sem gæti réttlætt, að bregða út af þeim vana um þetta mál. Því verð eg að halda fast fram.