23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

16. mál, aðflutningsbann

Júlíus Havsteen:

Eg ónáða ekki deildina með neinum breyt.till. Það kemur þó ekki til af því, að eg sé ánægður með frumvarpið. Eg álít þvert á móti, að ef á annað borð ætti að fara að krukka í það, þá yrði ekki heil brú eftir í því. Eg er sannfærður um að þetta væru verstu lög sem nokkum tíma hafa komið frá þingi, ef þau yrðu samþykt eins og þau líta út nú. Tveir háttv. þm. hafa talað og bent á umbætur á ýmsum ákvæðum frumvarpsins, en samt er margt eftir sem þarf að breyta. Til dæmis mintist eg við síðustu umræðu málsins á það, að eiginlega væri altarissakramentið afnumið með þessum lögum, þar sem bannað er eða hindrað að hafa vín við altarisgöngu.

Það sem eg aðallega hefi á móti frumvarpinu er það, að það brýtur gersamlega niður persónulegt frelsi manna. Í sumum ákvæðum þess eru menn jafnvel settir undir lögregluumsjón; það er eins og menn væru á Rússlandi. Yfirleitt eru allar reglur um það, hvers menn mega neyta og hvers ekki, algjörlega óþolandi. En eg veit, að skoðanir Goodtemplara á þessu efni eru alt aðrar og í hæsta máta afkáralegar. Eg hefi til dæmis heyrt Goodtemplara líkja aðflutningsbannlögunum við almenn lögreglubönn, t. d. bann gegn því að ríða hart um götur bæjarins. En slíkt er auðvitað mesta fjarstæða, því þetta er tvent ólíkt.

Annað sem eg sér í lagi hefi á móti frumvarpinu er það, að það fer í bága við eignar- og atvinnurétt manna. Það er ekkert vafamál, að þeir sem missa atvinnurétt sinn samkvæmt frumvarpinu, eiga að fá skaðabætur. Það leiðir beinlínis af 50. gr. stjórnarskrárinnar, sem segir að engan megi skylda til að láta af hendi eign sina, nema fult verð komi fyrir. Eg skal í þessu sambandi einnig benda á 4. gr. laga nr. 2, 4. marz 1904, um ráðherraábyrgð, þar segir að ráðberra skuli sekur, ef hann framkvæmir nokkuð það, er fyrirsjáanlega getur orðið einstaklingi að tjóni. Það sýnir, hve mikil áherzla er lögð á rétt og frelsi einstaklingsins.

Svo vil eg stuttlega minnast á þá mótbáru gegn frumvarpinu, sem menn heyra oftast nefnda, sem sé rýrnunina á tekjum landsins, sem leiðir af því að áfengistollurinn hverfur. Menn hafa að vísu sagt, að úr þeim halla mætti bæta með nýjum sköttum. En það er hægra sagt en gjört, enda er þegar þörf á auknum sköttum, þótt áfengistollurinn ekki félli niður. Ef nú bannlögin öðlast gildi 1. janúar 1912, svo sem til ætlast er, þá er óhjákvæmilegt, að búið sé fyrir þann tíma að koma skattalöggjöf landsins í það horf, að hún geti mætt þeim áföllum, sem af aðflutningsbannlögunum leiða. En með hinum núverandi hraða alþingis á afgreiðslu málanna, hefi eg alls enga von um, að slíkt geti orðið, enda er það hið mesta vandamál, að laga skattalöggjöf landsins.

Sú spurning liggur nærri, hvort nokkur nauðsyn sé á því, að leggja bann á aðflutning áfengis.

Það fer fjarri því að svo sé, því áfengisnautnin hér í landi er næsta lítil, að minsta kosti í samanburði við það, sem á sér stað hjá öðrum mentuðum þjóðum. Því það eru aðeins 3 pottar af áfengi (alkohol) sem árlega koma á hvern mann í landinu. Ef þessum neyzluskamti aftur væri jafnað niður á alla menn 15 ára og eldri, þá verða það þó aldrei meira en 230 staup á ári; þ. e. eitt staup á dag 8 mánuði ársins, en ekkert staup 4 mánuðina. Hér er eigi talið með það, sem fer í útlendingana, sem hér koma, og er það víst ekki minna en ?. Slíkt er ómögulegt að kalla mikla áfengisneyzlu, þótt eg eigi hafi nefnt vín (? pt. á mann) og ölið. Í heild sinni er óhugsandi, að nokkur heilbrigð sál telji ofdrykkju þjóðarböl hjá Íslendingum, einsog Góðtemplarar þó gera. Vér Íslendingar erum stilt og gætin þjóð, og í heild sinni hófsöm þjóð, ekki sízt í þessum efnum, og er engin ástæða til að ætla að hér verði nokkurn tíma ofdrykkja ríkjandi, eða að það verði til þess að koma þjóð vorri á kné, í nútíð eða framtíð. Og það þarf ekki annað en bera hana þar saman við aðrar nálægar þjóðir. Því þannig koma í Danmörku ekki minna en 10 pt. á mann og í Frakklandi jafnvel 15 pt Þetta er geysimikill munur; og dettur þó þessum þjóðum ekki í hug, það eg til veit, að fara að koma áfengisbannlögum á hjá sér, enda er vínræktin einn af aðalatvinnuvegum Frakka. Að vísu mun það svo, að í Ameríku séu í einu fylki bannlög á komin, en öll líkindi eru til þess, að þau standi ekki langan tíma eftir þeirri reynslu, sem liggur fyrir í 15 eða 16 öðrum fylkjum í Bandaríkjunum, þar sem menn hafa reynt að takmarka áfengisnautnina með ýmsu móti, án þess það hafi tekist. Enn fremur hefir verið vitnað í aðflutningsbannlög, sem þing Finna hefir samþykt í fyrra eða hitt eð fyrra, en verið neitað um staðfestingu. En alþýðan á Finnlandi er sannarlega öðru vísi en alþýðan hér. Á Finnlandi geta bannlög gegn áfengi verið nauðsynleg, en ekki hér. Annars finst mér aðflutningsbannshugmyndin þess eðlis, að hún lítt eða vart sé siðuðum þjóðum sæmandi.

Eg skal nú leyfa mér að drepa á nokkur atriði, sem mér finnast einkum athugaverð í sjálfu frumvarpinu.

Háttv. 5. kgk. hefir þegar tekið ýmislegt fram viðvíkjandi hinum einstöku greinum frumvarpsins, þar á meðal um bannið gegn innflutningi ýmsra hluta sem áfengi hafa inni að halda, svo sem duft, kökur o s. frv. Það liggur í augum uppi, að það er ómögulegt, að komast að nokkurri niðurstöðu um áfengisstyrkleikann í þessum kökum o. s. frv. án þess að eyða þeim um leið, enda er það svo lítilfjörlegt, hvað flyzt inn af þess konar sælgæti, að það er rétt að sleppa því hér. Það er alls ekki rétt, að forstöðumönnum og eigendum iðnfyrirtækja sé leyft að flytja að áfengi, sbr. 2. gr.; það litla sem þeir þurfa með, geta þeir fengið hjá lyfsölum.

Svo er í 3. greininni gert ráð fyrir að alt áfengi, sem til landsins er flutt, skuli fyrst flutt í land í Reykjavík. Það er alveg rangt, að veita Reykjavík þennan rétt. Hinir kaupstaðirnir og öll kauptún landsins hafa hið sama verzlunar- og aðflutningsfrelsi sem Reykjavík. Jafnframt er þeim, sem mega fá flutt til sín áfengi, en búa víðsvegar út um landið, gjört mikið óhagræði með þessu.

Umsjónarmaðurinn, sem skipa á eftir 2. gr., á ekki að hafa nema 600 kr. um árið, sem er langt um litið, þegar litið er til hins umsvifamikla starfs hans. Auk þess er starfsvið hans þannig til tekið í lagafrumvarpinu, að það á ýmsan hátt ruglast saman við starf lögreglustjóra.

4. grein er svo úr garði gjörð, að eg ætla alveg að leiða hjá mér, að tala um hana. Ákvæðin í henni eru ein flækja.

5. grein finst mér og á ýmsan hátt ærið athugaverð, þó eg ekki útlisti það nánar að sinni, enda hefir og háttv. 5. kgk. nokkuð minst á þetta ákvæði.

Þá er 6. grein. Ekki get eg annað ímyndað mér, en að þau fyrirmæli séu meir en lítið varhugaverð. Það er mjög vandfarið með strandað góz, sem er af útlendum skipum, og eg er viss um, að hvorki Frakkar, Þjóðverjar né Englendingar mundu gjöra sig ánægða með þá meðferð, sem gjört er ráð fyrir í greininni, á áfengi, sem strandað skip hefir meðferðis, hvort heldur sem farm eða skipsforða.

Í 10. gr. eru nefndir umboðsmenn lögreglustjóra. Við hvaða umboðsmenn er átt hér, hvort heldur þá, sem eru löggiltir af æðra yfirvaldi (nú stjórnarráðinu) til þess að framkvæma all mörg störf lögreglustjóra, kveða upp fógetaúrskurði o. s. frv., eða þá umboðsmenn, sem nefndir eru í opnu bréfi 28. desbr. 1836, og eru löggiltir að eins til þess að rita á skipaskjöl, og til að heimta inn tollgjöld. Þessum umboðsmönnum er blandað saman hér, og á þann hátt er þeim umboðsmönnum, sem síðar voru nefndir, þá falið vald til þess að gjöra fjárnám, sem er hreinasta fjarstæða. Lögreglustjórar utan Reykjavíkur hafa alls ekki umboðsmenn af því tægi, sem eg fyr nefndi.

12. og 13. grein ætla eg ekki að fara út í, þar sem háttv. 5. kgk. hefir áður tekið þær til rækilegrar athugunar.

Svo vil eg taka það fram, að mér virðast hegningarfyrirmælin alveg ófær; og eru hinar ákveðnu hegningar tiltölulega langt um þyngri, en fyrir afbrot á móti tolllögunum. Hegningarákvæðin um læknana eiga alls ekki heima í þessum lögum; þau eru að finna í hegningarlögunum.

Að öllu saman töldu tel eg lögin óhæfu. Og þó breytingar yrðu á þeim gerðar, þá er grundvöllur þeirra sá, að eg hlýt að greiða atkvæði gegn þeim.