23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður (Sig. Hjörleifsson):

Eg verð að mótmæla því, að það hafi verið óhæfa, að ekki var skipuð strax nefnd í mál þetta eftir 1. umræðu. Við þá umræðu kom sem sé ekkert fram, sem gerði nefndarskipun óhjákvæmilega; auk þess sem athugandi er, hversu skamt er eftir af þingtímanum, og því hin fylsta ástæða til að hraða gangi málanna sem mest Nú stendur alt öðru vísi á, þar sem síðan hafa komið fram mjög margar . breytingartillögur, bæði frá 5. kgk. og þm. Strand., og hafa þær sumar hverjar við talsvert að styðjast. Yfirleitt mætti skifta breytingartillögum þeim, sem fram hafa komið, í 3 flokka: í 1. fl. þær, sem miða til bóta á frumv.; í 2. fl. þær, sem álitamál er um, hvort séu til bóta eða spillis; og í 3. fl. þær, sem áreiðanlega stefna til spillis. — Þar sem nú svo er komið, að fram eru komnar svo margar breytingartillögur, sem víst er um að stuðningsmenn málsins taka til greina, að minsta kosti sumar hverjar, þá finst mér einmitt réttast að setja 5 manna nefnd í það, eins og stungið var upp á. Og vil eg þá styðja það, og að málinu verði frestað, þangað til sú nefnd hafi lokið störfum sínum.

En í öðru lagi vildi eg leyfa mér í fljótu bragði að benda á 2 atriði, sem fram hafa verið tekin. Það var ekki alveg rétt hjá háttv. 5. kgk., sem hann sagði viðvíkjandi því, að áfengi væri gert upptækt. Hann sagði að ófært væri að hella áfenginu niður; slíkt væri að eyðileggja peningavirði og því »barbarí«. En það áfengi, sem upptækt yrði gert, bæri að sjálfsögðu að fara þannig með eftir anda laganna, að því yrði ekki helt niður, heldur yrði það selt, en breytt þannig áður að það væri gert óhæft til drykkjar. En sé ekki réttur þessi skilningur minn, þá finst mér sjálfsagt, að setja ný ákvæði í lögin, þessu viðvíkjandi, sem kveði skýrar á um þetta atriði.

Eitt af mestu vandamálum laga þessara, er spurningin um skaðabæturnar. Nú finst mér lögfræðingarnir ósamdóma um, hvernig þær eigi að vera, og hverjir eigi að fá þær. En aðgætandi er, að þetta frumvarp er ekki stjórnarfrumvarp, heldur prívat-manna, og því ef til vill ekki nægilega undirbúið. Hins vegar finst mér mætti við það una, að setja í ekki að svo komnu ákvæði um það, þar sem ekki er til ætlast, að lögin séu í gildi gengin fyr en 1. janúar 1912, og þing á milli. Gæti þá stjórnin komið fram með sínar athugasemdir á næsta þingi, og mætti taka þær fyrir þar. Álít eg þessa leiðina í málinu hina langheppilegustu og ólíku betri heldur en farið sé nú að koma með í flaustri einhver ákvæði, sem hefðu ef til vill í för með sér þungar skuldbindingar fyrir landsjóð. — Ýmislegt fleira hefir og fram verið tekið, sem ástæða væri til að athuga, t. d. það sem háttv. 5. kgk. þm. sagði um það, að hér væri ekki að ræða um siðferðismál, og skil eg ekki, hvers vegna hann getur mælt svo. Það, sem nemur burtu freistingarnar, hlýtur að sjálfsögðu að bæta siðferðið. Og þarf ekki að fara lengra í þessu efni en þangað, að allur fjöldi lögreglubrota á einmitt orsök sína í áfengisnautninni, og sýnir það almenn »statistik« yfir lögreglubrot, að sú orsökin er einna tíðust. Má því hverjum heilvita manni liggja það í augum uppi, að hér er einmitt um mjög svo þýðingarmikið siðferðismál að ræða.