23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

16. mál, aðflutningsbann

Steingrímur Jónsson:

Eg stend upp til að lýsa því yfir, að eg er þessu frumvarpi algjörlega mótfallinn og mun greiða atkvæði á móti því, til að þvo hendur mínar af því, sem eg verð að kalla óhæfilega löggjöf. Um ástæður mínar til að vera móti málinu get eg verið stuttorður; þær eru hinar sömu sem háttv. 6. kgk. hefir þegar tekið fram. Aðalástæðan er sú, að með þannig lagaðri löggjöf er traðkað persónulegu frelsi einstaklingsins og sjálfstæði hans misboðið. Fullveðja mönnum eru bannaðir hlutir, sem löggjöfin hefir enga heimild til að blanda sér í, og verknaður er bannaður undir því yfirskyni, að varðveita fullorðinn mann frá vondu eftirdæmi; fullveðja menn á ekki að vernda með því að taka voðann frá þeim. Löggjafarvaldið fer hér út fyrir þau takmörk sem því eru eða eiga að vera sett. Og sé einu sinni byrjað á slíkri löggjöf, þá eru engin takmörk fyrir því, hve langt er hægt að fara. Hvað getur háttv. þm. V.-Ísf. sagt um það, hvort ekki verði farið að gefa lög um klæðaburð manna? Á tímum þessa ofsa geta fæðst enn verri »týrannar« en þeir, sem þetta mál flytja. Það er alstaðar viðurkent, að löggjafarvaldið verður að gæta þess vel, að fara ekki inn á svæði einstaklingsfrelsisins. Sagan sýnir, að siðferðisleg og menningarleg afturför er ávalt afleiðingin ef gengið er of nærri frelsi einstaklingsins; þar er óstjórnin mest, sem mest er þröngvað persónulegu frelsi manna.

Slík lög fara í bága við viðurkend mannréttindi um allan hinn mentaða heim, enda verða þessi lög, ef þau komast á, fyrstu lög í heimi, sem banna innflutning, sölu og nautn áfengis. Að vísu er það satt, að einu sinni var samþykt sams konar frumvarp í einu fylki í Ameríku, en það kom aldrei í gildi af því að hæstiréttur dæmdi, að kæmi í bága við stjórnarskrá Ameríkumanna, að bannaður væri innflutningur áfengis í forsigluðum umbúðum, adresseruðum til einstakra manna. Ameríkumönnum hefir aldrei síðan dottið í hug innflutnings-bann á áfengi. Eg hefi heyrt vitnað í það, að slík lög séu á prjónunum í Finnlandi, en eg hygg, að ekki sé rétt að hafa Finna að fyrirmynd í þessu; þeir hafa ekki farið svo vel að ráði sínu síðan þeir fengu stjórnarskrá sina.

Þessi lög eru því verri sem eg hygg alveg vafalaust, að tilgangurinn með þeim náist ekki. Þau ríða svo mjög í bága við réttlætistilfinning manna, að þau verða vafalaust brotin, og við það skapast nýr flokkur lögbrota, sem er stórhættulegur, af því hér er um þýðingarmikið mál að ræða, sem annars vegar snertir persónulegt frelsi manna og hins vegar áfengi. Áfengis verður neytt í laumi, og það er vitanlegt, að launnautn er verst og hættulegust.

Það hefir verið sagt, að þetta sé siðferðismál; því verð eg að neita. Að vísu er það siðferðistakmark, að létta áfengisbölinu af þjóðinni, en það er ekki siðferðismál, að gera það með banni, heldur með því að kenna þjóðinni að fara svo með áfengið, að það geri ekki skaða, því það er vitanlegt, að áfengið er, eins og aðrar guðs gjafir, ekki ilt nema þess sé neytt í óhófi.

Það hefir sömuleiðis verið sagt, að þetta sé heilbrigðismál. Auðvitað á áfengisnautnin, þar sem hún er óhóflega mikil, mikinn þátt í að veikja þjóðirnar. En hér á það ekki við, því drykkjuskapur er nú orðið mjög lítill hér.

Hér er sannarlega margt stærra heilbrigðisböl en áfengið, margt sem eyðileggur þjóð vora meir og fljótar, því áfengið drepur mjög seint.

Það sem mér þykir einna athugaverðast við þetta mál er það, að þessi aðferð til að útrýma áfengisbölinu verður vafalaust til að eyðileggja allan bindindisáhuga og máske bindindissemi í landinu; að lögin verða til að eyðileggja það sem hefir bygt þau upp. Goodtemplarreglan hlýtur að leysast upp þegar bannið er komið á, því að þá er starfi hennar lokið, en hún hefir átt mikinn þátt í að auka bindindisáhuga og bindindissemi hér. Og verði afleiðingin þessi, þá er verr farið en heima setið.

Háttv. þm. V.-Ísf. neitaði því, að með lögunum yrði settur skrælingjastimpill á þjóðina. En því verður ekki mótmælt. Í augum útlendra þjóða hljóta lögin að verða skrælingjastimpill á okkur. Við setjum okkur með þeim á bekk með Grænlendingum. Munurinn er að eins sá, að hér er það alþingi sem setur lögin, en í Grænlandi eru það dönsk stjórnarvöld. Stimpilinn setjum við á okkur, og hann segir, því miður, dálítið rétt til. Með banninu gerum við ekki annað en að veikja þjóðina gagnvart áfenginu, ef því verður hleypt inn í landið aftur síðar meir, og sömuleiðis veikjum við gagnvart því þá menn, sem fara héðan til annara landa. Bannlög hækka því ekki menninguna, eins og háttv. þm. V.-Ísf. vildi halda fram, heldur skerða þau hana. Flestar menningarþjóðir heimsins hafa ávalt haft áfengið sem eitt helzta neyzlu-efni.

Þá er ein hlið þessa máls sem ekki má gleyma, og það er fjárhagslega hliðin. Með því að svifta landsjóð áfengistollinum, stofnum við landinu í fjárhagsleg vandræði. Auðvitað væri þetta engin ástæða, ef það væri rétt sem bannvinirnir segja, að með banninu sparaðist jafnmikið fé eða meir en tollinum nemur. En það er alls ekki rétt. Útlendingar kaupa svo mikið vín hér, að við það kemur fullkomlega eins mikið fé inn í landið, eins og út úr því fer fyrir vín. Við sköðumst því vafalaust á banninu, og það borgar sig varla, þegar litið er á það, hve áfengisnautn hefir minkað meðal landsbúa.

Menn byggja það á þessari margumræddu atkvæðagreiðslu, að lög þessi eigi að ná samþykki; en það er alls ekki rétt, að byggja á þessari atkvæðagreiðslu, því þjóðinni var eigi skýrt frá, að í vændum væru svona ströng bannlög. Menn eru alt af að miða við einhver lög, sem eiga að vera til einhversstaðar í Ameríku um þetta efni. Og það má benda á fjölda flugrita, sem dreift er út um bæinn nú um þingtímann um þetta mál, og eru þau svo svæsin sum þeirra, að sjálfur stórtemplar neyddist til að taka það fram á fundi hér fyrir skömmu, að þessi flugrit væru ekki á ábyrgð stórstúkunnar, heldur þeirra manna, sem þau sendu út. Það eru með öðrum orðum einhverjir menn, sumir hverjir eflaust ekki birgðir alt of mikilli þekkingu, sem leika lausum hala til þess að »agitera« í fólki og jafnvel blekkja menn.

Það hefir aldrei verið sýnt fram á það enn, hvar landsjóður ætti að fá uppbót fyrir þann tekjumissi, sem hann verður fyrir ef þessi lög komast á. Bóndinn hefir ekki verið spurður að, hvort hann vildi að ábúðarskatturinn yrði hækkaður um helming, eða sykurtollurinn um 2 aura á pundið; það hefir að eins verið barið fram að féð kæmi af því, að menn hættu að drekka. Bóndanum hefir heldur aldrei verið sagt, að útlendingar drykkju ? hluta af öllu því, sem hér er drukkið. Aðflutningsbann hefir þjóðin því aldrei réttilega samþykt, það hefir verið laumast að þjóðinni með það. Mér er ekki unt að segja hvað þjóðin myndi segja um þetta mál, ef það væri borið undir hana aftur og henni sagt frá öllum málavöxtum, og það má vera að þjóðarvilji sé meiri fyrir þessu en eg hygg hann sé. Það er að vísu rétt, að með málinu hafa um 5000 manns greitt atkvæði, en það er eigi nema hér um bil 5/12 hlutar af kosningarbærum mönnum í landinu, svo það er ómögulegt að segja að meiri hluti þjóðarinnar hafi samþykt það.

Eg skal þá snúa mér að einstökum greinum frumvarpsins. Í fyrstu grein þess er talað um hvað bannað skuli að flytja til landsins, nfl. alt sem meir en 2¼% af alkóhóli er í. En eg get ekki betur séð en að þetta mark 2¼% sé sett alveg af handahófi, því annað hvort hygg eg að banna ætti að flytja til landsins alt, sem áfengi er í, hversu lítið sem það er, ef það að eins verður fundið með alkóhólmæli, eða þá að miða við þann styrkleik, þegar áfengið fer að verða skaðlegt til neyzlu. Og þar er einmitt það, sem menn ættu að beinast að í baráttunni á móti áfenginu, hið óblandaða eða lítið blandaða áfengi, »concentrerað alkóhól«, því það er eitur og þar af leiðandi skaðlegt til drykkjar. En aftur á móti eru mörg vín öldungis skaðlaus, t. d. mörg hvít vín, létt öl o. fl.; og sum vín eru beinlínis holl, t. d. sum rauðvín, og er hæpið að bindindismenn geti bent á betri drykki. Markið hefði því annað hvort átt að vera hærra eða lægra.

Þó eg sé algjörlega á móti anda þessara laga, þá er eg þó samdóma háttv. 6. kgk.

um það, að það verði að gera þau svo sæmilega úr garði sem unt er, fyrst þeim er dembt á þjóðina hvort sem er. Eg skal sérstaklega taka það fram, að eg er með breytingartillögunni við 9. gr., af því eg sé að hún miðar til sparnaðar fyrir landsjóð. Ef vínsölubannið ætti að ganga í gildi 1912, þá yrði landsjóður eflaust að greiða stórmikið fé fyrir þær vínbirgðir, sem þá væru eftir í landinu. Það er því næg ástæða til að fá þessa breytingartillögu samþykta. Eg skal að lokum taka það fram, að eg er algerlega samþykkur breyt.till. á þskj. 620, um að málið verði að nýju borið undir atkvæði þjóðarinnar, og það af þeim ástæðum, sem eg þegar hefi skýrt frá.