22.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Stefán Stefánsson:

Eg ætti líklega að vera nefndinni þakklátur fyrir það, hvernig hún hefir tekið í tvær fyrstu breyttill. mínar á þgskj. 556. Reyndar vill hún skera fyrri fjárveitinguna, til skólabókanna, við neglur sér, þar sem hún vill lækka hana úr 2000 kr.. niður í 1000 kr. Eg skil ekki, að nefndin geti hugsað sér, að nokkuð verulegt sé hægt að gjöra fyrir einar 1000 kr. á ári, og það því síður sem hún vill láta 45 kr. borgun fyrir örkina halda sér. Með því móti yrði ekki ráð á nema tveim litlum skólabókum á þessu fjárhagstímabili. Það er ekki hægt að segja, að neitt stórt skrið kæmist á skólabókaútgáfuna með því. Upprunalega hafði eg ekki hugsað mér að fara fram á 2000 kr., heldur 3000 kr., svo að bæði væri hægt að kaupa handrit og kosta útgáfu bókanna og svo borga skólabókanefndarmönnunum dálitla þóknun fyrir eftirlitið með henni.

Eins og nú er ástatt, vantar í æðri skólum okkar íslenzkar kenslubækur í öllum námsgreinum. Það sem vakti fyrir okkur, þegar talað var um skipun skólabókanefndarinnar hér í deildinni ekki alls fyrir löngu, var einmitt það, að nefndin gengist fyrir, að slíkar bækur yrðu samdar. En það liggur í augum uppi, að 1000 kr. eru alt of lítil fjárveiting til þessa; fyrir það getur nefndin ekki látið semja nema eina bók á ári. Mér finst það nærri því hlægilegt, að vera að skipa nefnd til að sjá um útgáfu skólabóka, ef hún á ekki að fá meir en 1000 kr. árlega til að starfa fyrir. Eg vona því að háttv. deild samþykki mína tillögu eins og hún er. Fáist engir menn til að semja bækurnar, eins og mér skildist fjárlaganefndin búast við, þá gerir það hvorki til né frá, þó þessar 2000 kr. standi á fjárlögunum; peningarnir verða í kassanum eftir sem áður.

Um 2. breyt.till. á þgskj. 556 er nefndin mér samdóma, en hún fer líka fram á lækkun, svo að það er ekki svo undarlegt. í rauninni hefði eg helzt viljað fella þennan styrk alveg, þó eg hafi ekki farið lengra nú en að lækka hann um helming.

Þá eru enn tvær breyt.till. á sama þskj., um styrkveitingar til einstakra manna. Mér hefir altaf fallið illa, þegar menn láta sér ekki nægja að neita um slíka styrki, heldur fara þar á ofan óvirðingarorðum um umsækjendurna, sem »einhverjar óþektar stærðir«, eins og háttv. framsögum. gerði. Hann talaði yfirleitt í lítilsvirðandi tón um slíkar styrkbeiðnir og styrkveitingar, eins og hann áliti þær að einhverju leyti ósæmilegar. Og hann er ekki einn um þá skoðun; orðið »bitlingur« virðist yfirleitt hafa fengið einhverja óvirðulega merkingu hér. Að mínu áliti eru bitlingar nauðsynlegir, og eg veit ekki betur en að margir þeirra hafi komið að mjög miklu gagni. Eg vil hvorki tala virðulega né óvirðulega um Guðmund Friðjónsson, en það er að minsta kosti ekki hægt að kalla hann »einhvern Guðmund Friðjónsson«, til þess er hann of þektur. Hann sótti ekki um styrk, en Nd. setti hann inn á lögin með 300 kr. styrk hvort árið. Það getur verið, að það sé nóg, en mér þykir óviðfeldið að ætla honum helmingi minna en næsta Guðmundinum á undan. Það er eins og þingið álíti hann helmingi lakara skáld en Guðm. Guðmundsson. Það er einmitt út frá þessu samkvæmnis sjónarmiði, sem eg legg til að styrkurinn til hans sé hækkaður. Eg hefði ef til vill getað verið með því að fella þá báða, en eigi Guðm. Guðmundsson að hafa 600 kr., þá finst mér Guðm. Friðjónsson ekki mega hafa minna.

Síðasta breyt.till. mín á þgskj. 556 fer fram á styrk til Ólafs Þorsteinssonar cand. phil. til að ljúka námi á fjöllistaskólanum í Höfn, 500 kr. hvort árið. Um þennan mann mætti ef til vill með nokkrum rétti segja, að hann sé »einhver« Ólafur Þorsteinsson, þar sem hann er ungur og óþektur. Hann hefir verið undanfarin 4 ár í Höfn og lesið þar verkfræði við fjöllistaskólann; aðallega hefir hann lagt stund á vegafræði og byggingafræði. Þessi 4 ár hefir hann notið Garðstyrks, en er nú búinn að missa hann, og þar sem maðurinn er bláfátækur og getur ekki af eigin rammleik kostað sig í Höfn, er honum nauðugur einn kostur að hætta námi, ef hann fær ekki þennan styrk, sem hér er farið fram á. En það væri mjög illa farið, því maðurinn er mjög efnilegur, eftir því sem honum kunnugir menn hafa sagt mér. Hann hefir meðal annars fengið ágætan vitnisburð frá rektor lærða skólans. Nú hagar svo til hér, að hér eru skólar fyrir læknisfræði, lögfræði og guðfræði, svo að öll þessi fög er hægt að nema hér heima, en aftur er hér enginn skóli fyrir verkfræði. Þessa grein verða menn að nema annaðhvort í Höfn eða einhversstaðar annarsstaðar í útlöndum. En hins vegar er hér einmitt mikil þörf á verkfræðingum nú sem stendur. Mér finst það því vera hrein og bein skylda landsjóðs að styrkja unga og efnilega menn til þessa náms.

Ef þessi ungi maður yrði að hætta námi nú, þá væri eytt til einskis þeim 4 árum sem hann hefir verið við námið, og þá kæmi það fé, sem hann hefir varið til þess, að engum notum, og eg get ekki neitað því, að mér findist það stórtap, ekki síst þar sem hann býst við að geta lokið náminu á 2½ ári. Eins og eg sagði áðan, þekki eg manninn að eins af afspurn, en hann er sagður mjög efnilegur, Eg skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp vitnisburð þann, er eg gat um áðan, að rektor lærða skólans hefði gefið honum. Hann hljóðar svo:

»Að herra stud. polyt. Ólafur Þorsteinsson sé mér vel kunnur af veru sinni í lærða skólanum sem sérlega vel gáfaður, kappsamur og duglegur nemandi, eins og líka ágætur vitnisburður hans við burtfararpróf 1904 bendir til, það er mér hér með ánægja að votta, um leið og eg verð að láta í ljós, að eg, að því er eg þekki hæfileika hans, hygg hann þess einkar maklegan, að hann hljóti styrk þann, er hann sækir um til framhalds á námsbraut sinni.

Reykjavík 22. apríl 1909.

Stgr. Thorsteinsson, rektor.«

Eg vona að háttv. deild verði mér samdóma um það, að það sé ekki einungis rétt, heldur bein skylda okkar að styrkja þennan unga mann.