21.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

19. mál, lífsábyrgð sjómanna

Eiríkur Briem:

Í frumvarpi þessu er gerð sú breyting á fyrirkomulagi því sem nú er, að allir sjómenn séu skyldir að líftryggja sig, ekki einungis fiskimenn á þilskipum, heldur allir þeir, er sjó stunda, á hvern hátt sem er. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði og stefnir til bóta ; og tel eg hina mestu nauðsyn á, að frumvarpið nái fram að ganga. Við 3. umr. í Nd. voru gjörðar miklar breytingar á frumvarpinu, en þá var þó ekki gætt að sumu, sem nauðsynlega þarf að gjöra ákvæði um eða breyta, t. d. titlinum. Sá munur er á þilskipum og bátum, að ekki er skylda að lögskrá þá, sem á bátum eru. Þar vantar því ákvæði um, á hvern hátt innheimta skuli gjaldið. — Í 9. gr. er sagt, að lögin frá 10. nóv. 1903 falli úr gildi. En óhjákvæmilegt er, að gjöra þá ákvæði þar af leiðandi. Sá sjóður, sem myndast hefir eftir lögunum frá 1903, var um næstliðin áramót um 12000 kr., en á honum hvíldu skuldbindingar, er miklu meiru nam; hann byrjaði með engu fé. En svo vill svo til, að í apríl 1906 voru mannskaðar miklir; við það lögðust svo þungar kvaðir á sjóðinn, að þar sem um nýár það ár voru í sjóði 21 þús. kr., þá urðu skuldbindingarnar 37 þús. kr. En þar sem það var ákveðið, að útborganirnar skyldu fram fara á 4 árum, þá var eigi við því hætt, að sjóðurinn gæti eigi borið sig. Þess vegna eru og, þar í samræmi við, skuldbindingar þær, sem sjóðurinn stóð í 1908, miklu minni en 1907; um næstu áramót verður það að vonum töluvert minna, o. s. frv. En hins vegar er óhjákvæmilegt að taka nú einhverjar ákvarðanir um sjóðinn og þær skuldbindingar, sem á honum hvíla. — Það er yfir höfuð nauðsynlegt, að taka rækilega til greina aðstöðu frumvarps þessa til eldri laga, og má búast við, að allmiklar breytingar muni þurfa að gera á frumvarpinu. Legg eg því til, að frumvarpið sé sett í nefnd. Álít eg málið mjög mikils vert, og er einlæg ósk mín, að það nái fram að ganga; tel eg mjög illa farið, ef það skyldi daga uppi, en til þess ætti eigi að þurfa að koma.