26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

19. mál, lífsábyrgð sjómanna

Framsögum. (Sig. Stefánsson):

Nefndin, sem kosin var til þess að íhuga þetta mál, hefir gert ýmsar breytingar á frumv., þó ekki af því, að hún álíti frumv. ekki réttarbót. Nýmælið í frv. um það, að láta vátryggja sjómenn á opnum bátum, þótti nefndinni rétt að takmarka svo, að ekki verði látið ná til minni báta en sexæringa. Það kemur varla fyrir að minni bátum sé haldið úti nema á sumrum og milli vertíða; þessi sjósókn er svo lítil, að það er naumast hægt að tala um hættu samfara henni.

Þess var heldur ekki nægilega gætt í frumv., hve ólíkt hagar til um háseta á opnum skipum og þilskipum, því að á opnum bátum eru hásetar ekki lögskráðir. Bátar ganga úr ýmsum hlutum lögsagnarumdæmanna, og það yrði því bundið erfiðleikum fyrir formenn og útgerðarmenn, að þurfa að snúa sér til skrásetningarstjóra. Nefndin hefir því viljað breyta þessu samkvæmt því sem farið er fram á í br.till. hennar.

Nefndin vildi gera innheimtu vátryggingargjaldsins léttari báðum pörtum, og taldi réttara að láta hreppstjóra innheimta hjá formönnunum.

Það var ekki tekið fram í frumv., hvað gera skyldi við þann sjóð, sem þegar er til eftir lögunum frá 10. nóv. 1903, og er þar önnur aðalbreyting, sem nefndin hefir gert á frumv. Nefndin hefir í 8. br.till. sett ákvæði um þetta atriði.

Eg skal svo ekki fara frekar út í br.till. að sinni. Það má auðvitað deila um, hvort þær sé heppilegar eða ekki, en eg skal ekki lengja umræðurnar fyr en eg heyri andmæli frá háttv. deildarmönnum.