16.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

20. mál, fræðsla barna

Jens Pálsson:

Það er hvorttveggja að eg er kvefaður, enda skal eg vera stuttorður. Eg álít frumvarp þetta gott og þarft, það sem það nær. Að fá slík ákvæði um skóla einstakra manna, er geri þá að liðum í hinni almennu fræðslu landsins, tel eg mjög heppilegt; með því er bæði létt undir með skólum þessum, og trygt að þeir leysi starfa sinn viðunanlega af hendi.

Þá tel eg og mjög heppilegt, að lengja frest þann, sem veittur er í 15. gr. fræðslulaganna um 2 ár. Það er sjálfsögð tilhliðrunarsemi, einkum þegar þess er gætt, hve alvarlegar kvartanir hafa komið víðsvegar að, að því er lög þessi snertir. En úr því farið er að breyta lögunum á annað borð, þykir mér hlýða, að taka nokkur fleiri atriði til athugunar. Sérstaklega vil eg benda á, að ákvæði vantar um starfsvið og vald hreppsnefnda og bæjarstjórna annars vegar, og fræðslunefnda og skólanefnda hins vegar, að því er kemur til ákvarðana um byggingu skólahúsa. Um þetta efni er þegar orðinn ágreiningur. Fræðslu- og skólanefndir líta svo á, að þær geti bygt alveg eftir sínu höfði, og svo komið til hreppsnefnda og bæjarstjórna og sagt þeim að borga brúsann. Þetta þykir hreppsnefndum og bæjarstjórnum, sem hafa fjárveitingarvald að því er hrepps- og bæjarsjóði snertir, eðlilega hart. Þær eiga að bera ábyrgð á fjárhag hreppa- og bæjarfélaganna, en geta þó ekki hindrað, að þeim sé hleypt í stór útgjöld með dýrum skólahúsbyggingum. Fyrir því tel eg nauðsynlegt, að um það séu skýr lagafyrirmæli, að þegar byggja þarf, þá annist hreppsnefndir eða bæjarstjórnir að öllu leyti um verkið, en verði að fara eftir teikningu, sem samþykt sé af yfirstjórn fræðslumálanna. Út á þetta gengur tillaga, sem eg ásamt háttv. þm. V.-Ísf. á á þskj. 466. Eg býst við að nefnd verði sett í málið, og þá vildi eg benda henni á þetta; verði það ekki, þá má ræða tillögu þessa frekar við 2. umræðu málsins.