27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

21. mál, vígslubiskupar

Framsögum. (Sig. Stefánsson):

Þetta frumvarp er upphaflega frá stjórninni, og var því vísað til okkar, sem vorum í nefndinni um laun sóknarpresta, þegar það var til umræðu hér í deildinni í fyrra skiftið.

Málið er ógnarlega einfalt og þarf lítilla skýringa við. Tildrögin eru þau að biskup fór fram á að skipaður yrði varabiskup hér á landi. Það er óviðkunnanlegt að biskupar þurfi að fara utan til biskupsvígslu. Hitt er miklu viðkunnanlegra, að biskup landsins sé vígður hér heima, auk þess sem það er miklu ódýrara fyrir biskupsefni. Frv. stjórnarinnar hefir verið breytt all mikið í Nd. Varabiskupar eiga nú að vera tveir, annar í Hólabiskupsdæmi, en hinn í Skálholtsbiskupsdæmi hinu forna. Á þetta hefir nefndin fallist, telur hún með þessu fengna enn meiri tryggingu fyrir því, að aldrei þurfi til þess að koma, að biskupsefni þurfi utan að fara til biskupsvígslu, auk þess sem hún telur frumvarpið að þessu leyti fara lengra í þjóðræknis stefnuna, en hið upphaflega frumvarp. Nefndinni hefir þótt frumv. ekki sem bezt orðað, og þess vegna komið með nokkrar orðabreytingar, en engar efnisbreytingar. Eg hefi ekki annað að segja fyrir hönd nefndarinnar, en vona aðeins að tekið verði vel við frumvarpinu í þessu formi, og að það komist frá þinginu að þessu sinni.