27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

21. mál, vígslubiskupar

Steingrímur Jónsson:

Eg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, og vil því gera nokkra grein fyrir afstöðu minni í þessu máli.

Ég lít svo á, að frumvarp þetta sé þarft og að breytingarnar, sem gerðar hafa verið á því, séu til töluverðra bóta. Tilgangurinn er betur trygður með frv. eins og það nú er orðið, heldur en eins og stjórnarfrumvarpið var. Auk þess sé eg þann kost við breytingarnar, að þar sem stjórnarfrumvarpið fór fram á stofnun fasts embættis, gerir frumv., eins og það er nú orðið, að eins ráð fyrir 2 nokkurs konar heiðursstöðum, en stofnar ekki til nýs embættis.

En eg skrifaði undir með fyrirvara af þeirri ástæðu einni, að eg var óánægður með að þessir tveir prestar skyldu taka biskupsvígslu. Eg álít ekki vera neina þörf á vígslu, og er sammála háttv. þm. V.-Ísf., að það er óviðkunnanlegt að vígja til þess að framkvæma þetta eina verk. Eg álít nægilegt að gefa þeim prestum, sem klerkastétt landsins kýs, umboð til þess að framkvæma biskupsvígslu. Og þegar útnefning konungs kemur í viðbót við kosninguna, þá þarf ekki meira; vígslan bætir engu við. Eg vildi styðja breyt.till. í þessa átt, ef hún kæmi fram við 3. umræðu. En ef slík breyting kæmist á, þyrfti líka að breyta niðurlagi 2. greinar. Eg geri þetta þó ekki að kappsmáli, og mun greiða atkv. með frumvarpinu, þó því verði ekki breytt í þessa átt.