27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

21. mál, vígslubiskupar

Ráðherra (H. H.):

Eg er þakklátur nefndinni fyrir tillögur hennar í málinu, og eg álít breyt.till. hennar vera til bóta. Að eins líkar mér ekki orðið »aðalbiskup«. Það minnir einhvern veginn á »erkibiskup«. Eg held að t. d. »biskup landsins« væri heppilegra, því að ef orðið »aðalbiskup« heldur sér í þessum lögum, er hætt við að segja megi, að það sé nú hið löglega heiti biskupsins að heita »aðalbiskup« héðan af.

Eg skildi ekki vel afstöðu háttv. 5. kgk. þm., einkum að því er snertir það atriði, að ekki þurfi sérstaka menn til að framkvæma biskupsvígslu, heldur megi skipa menn »ad hoc«. Þetta held eg að sé ekki rétt, eða að minsta kosti mjög vafasamt. Í resol. 14. ág. 1789 eru einu lagaákvæðin, sem hér er til að dreifa, og þar er mælt svo fyrir, að biskupar á Íslandi megi vígja hvor annan. En þar er engin undanþága gerð í þá átt, að aðrir en biskup megi vígja til biskups. Það mun vera regla í lútersku kirkjunni, að biskupsvígsla sé því að eins talin fullnægjandi, að hún sé framkvæmd af biskupi. Það er ekki rétt hjá háttv. þm. V.-Ísf., að þetta sé katólskur siður. Ef þetta er katólskt, þá er líklega margt af siðum okkar kirkju katólskt, ef til vill alt. En hvað sem því líður, þá virðist ekki rétt af þinginu að brjóta bág við kirkjulegar skoðanir þjóðkirkjunnar, meðan henni er haldið í hefð og gildi.

Eg get ekki séð, að nein niðurlæging fyrir biskupsvígsluna felist í því, þó að mennirnir séu vígðir að eins til þess að framkvæma þetta eina starf á æfinni. Vígslan hefir sama gildi alt að einu; með henni hafa þeir fengið þann eiginlegleika, sem nauðsynlegur er eftir reglum kirkjunnar til þess, að þeir megi framkvæma biskupsvígslu. Því að eg held því föstu, að til þess hljóti þeir, sem vígsluna framkvæma, að hafa biskupssvígslu sjálfir.

Það hefir og verið sagt, að þessi 500 kr. þóknun, sem vígslubiskupar eiga að fá til vígslukostnaðar þegar þeir vígjast, væri of há; en mér finst hún ekki mega lægri vera. Kostnaðurinn getur verið töluverður, bæði ferðakostnaðurinn og ýms annar kostnaður, svo sem kostnaður til skrúða o. fl.

Það hefir líka verið talið óviðkunnanlegt, að vígslubiskupar fái borgun eftir reikningi fyrir biskupsverk sín. Eg get ekki fallist á þetta, enda veit eg ekki hvernig því yrði fyrir komið öðru vísi. Hér er ekki átt við borgun fyrir sjálfa athöfnina, fyrir hana verður ekkert borgað. En það sem hér er átt við, er ferðakostnaður og yfir höfuð útlagður kostnaður í sambandi við embættisverkið.

Eg vona að frumvarpið verði samþykt, en mundi að eins óska heldur, að »biskup landsins« kæmi í stað »aðalbiskup« í 1. og 3. gr. frumvarpsins frá nefndinni.