27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

21. mál, vígslubiskupar

Kristinn Daníelsson:

Eg vildi að eins gera stutta athugasemd út af ræðu hæstv. ráðherra. Það var ekki ætlun mín, þegar eg nefndi kaþólskan sið, að gefa kaþólsku kirkjunni neitt olnbogaskot. Ætlun mín var að eins, að gera greinarmun á skoðunum kaþólsku kirkjunnar og prótestantisku kirkjunnar í þessu efni. Eftir skoðun kaþólskrar kirkju getur það alls ekki komið til mála, að annar en biskup framkvæmi biskupsvígslu. En eftir skoðun prótestantiskrar kirkju er ekkert því til fyrirstöðu. Hver sem hefir prestvígslu getur vígt prest, og gæti einnig vígt biskup. Enda eru og þess dæmi hér og annarstaðar, að óbiskupvígðir menn bera biskupsnafn. Árni Helgason var biskup að nafnbót og framkvæmdi biskupsverk. Grundtvig var einnig biskup að nafnbót, óvígður, en mér er ekki kunnugt um, hvað hann hefir framkvæmt af biskupsverkum.

Eg verð að halda því fram, að biskupsvígsla væri fullgild, þótt hún væri ekki framkvæmd af biskupsvígðum manni.

Mér þætti viðkunnanlegra, að föst borgun væri ákveðin fyrir biskupsverk, heldur en að þau séu borguð eftir reikningi. Enda er það tíðast um meiri háttar störf, að þau eru borguð með ákveðinni upphæð, en ekki eftir sundurliðuðum reikningi. Þess mætti nefna mörg dæmi, ef þörf gerðist, t. d. er byggingarmeistarar gera teikningar af húsum o. fl. slíkt.