27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

21. mál, vígslubiskupar

Lárus H. Bjarnason:

Það var nokkur ástæða til að samþykkja stjórnarfrumv. um 1 varabiskup, en engin ástæða til að samþykkja þetta frv. um 2 vígslubiskupa. Hitt var nokkur ástæða, þó að ekki væri það nauðsynlegt, því að það mun vera löglegt, að óbiskupsvígður maður vígi biskup. Það mun rétt vera, sem háttv. þm. V.-Ísf. sagði, að hver sá, sem getur vígt prest, getur einnig vígt biskup. Það hefir átt sér stað hér, að prestvígður maður hefir vígt prest í forföllum biskups. Og eins og eg drap á áðan, hefi eg heyrt, að það hafi verið gerður undirbúningur til þess, að prestur framkvæmdi síðustu biskupsvígslu hér í Reykjavík, ef fráfarandi biskup hefði ekki getað aðstaðið vegna heilsubilunar.

Það er of íburðarfrekt að hafa 2 vígslubiskupa, þar sem það bæði er alveg þarflaust og hefir auðvitað í för með sér töluvert aukin útgjöld. Það kostar fyrst og fremst 1000 kr. að fá þessa 2 biskupa vígða. Auk þess verður landsjóður að borga allar þær vígslur og önnur biskupsverk, sem vígslubiskupar framkvæma. Þetta getur orðið töluverður kostnaður, því að það má búast við að biskup landsins lettist fremur en hitt, er hann fengi staðgenglana, og kysi heldur að láta vígslubiskupana framkvæma fyrir sig prestvígslur, en að taka á sig það ómak sjálfur.

Hólakirkja var dómkirkja, en hún er það ekki nú. Hún mundi því þurfa töluverðra umbóta við til þess að verða sæmileg dómkirkja aftur. Það er sitt hvað að vera viðunanleg sveitakirkja eða dómkirkja. Útgjöldin verða mikil og öll að þarflausu, engin þörf á neinum vígslubiskup, sízt tveimur. Hitt er full löglegt, að prestvígðir menn vígi biskup.