04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Steingrímur Jónsson:

Eg skal leyfa mér stuttlega að gera grein fyrir breyt.till. mínum á þgskj. 717.

1. breyt.till. fer fram á hækkun á fjárveitingunni til Reykjadalsbrautarinnar úr 10000 upp í 15000 kr., eða að láta hana verða eins og hún var í frumvarpi stjórnarinnar. Það er ekki veitt svo mikið til vega að vert sé að klípa af þessari upphæð, úr því á að veita nokkuð á annað borð. Akbrautin liggur líka yfir hraun suður með Laxá, sem er svo að kalla ófært. 10000 kr. mundu máske nægja til þess að komast út úr hrauninu, en alls ekki meira. Hinsvegar verður að líta á það, að verkfræðingar álíta ekki praktiskt að vinna fyrir minni upphæð en 15000, úr því verður að ráða vinnuflokk til að vinna í afskektu héraði sumarlangt. Enn ber að gæta þess, að þessi akbraut ætti í rauninni að vera komin lengra en hún er.

2. breyt.till. er við 13. gr. C. 1. Hún fer fram á, að niðurlag athugasemdarinnar sé felt burt. Athugasemdin er bygð á tilboði frá Sameinaða gufuskipafélaginu, sem ekki er skuldbindandi, en má aðeins skoðast sem samningstilboð til hvers sem vera vill. En niðurlag athugasemdarinnar byggist ekki á ákveðnu tilboði. Eg álít að alþingi eigi ekki að ganga að samningum um svo langan tíma, nema því berist ákveðið, sæmilega gott tilboð. Hér er ekki svo; þessi athugasemd er mjög óákveðið orðuð, út í loftið. »Mun betri ferðir» er alveg óákveðið; þar er ekkert talað um að við fáum ný, betri skip, sem svari kröfum tímans, og okkur er nauðsyn að fá. Vér yrðum t. d. að fá kælirúm í skipin, og þau mættu ekki vera einungis til málamynda. Fjárlaganefndin hefði átt að hafa teikningar af vissum skipum o. s. frv. Eg teldi miklu betra ef stjórninni tækist að leggja ákveðið tilboð í þessa átt fyrir þing 1911. Niðurlag málsgreinarinnar fer fram á nokkrar ferðir til Hamborgar. Þetta ákvæði virðist mér líka óákveðið og enda hættulegt Mér virðist ekki skip okkar eiga þangað erindi ennþá. Því þó að við fáum að vísu töluvert af vörum frá Þýzkalandi, þá höfum vér þar enga verzlun sjálfir, vér höfum enga credit. Alt sem þaðan kemur hingað, kemur gegnum milligöngumenn. Mér sýnist það, að setja svona ákvæði inn, vera nokkuð sama sem að byrja á neglunni við bátasmíði. Það væri annað mál, ef vér hefðum haft ráðunaut á þessum stað til þess að ryðja þar íslenzkri verzlun braut. Slíkum ráðunaut er eg meðmæltur, og væri æskilegt, að stjórnin gæti undirbúið það mál.

3. br.till. er við 13. gr. D. II. 1. Eins og nú stendur í frv. er að eins farið fram á eina nýja símalagning. Eg hefi leyft mér að stinga upp á nýjum lið við þetta, sem sé að strengja síma frá Rvík til Borðeyrar og frá Akureyri til Valla. í frv. stjórnarinnar var farið fram á að strengja síma frá Rvík til Borðeyrar með tvöföldum koparþræði, en var svo felt í þinginu. Nú hefir símastjórinn gert grein fyrir, að erfitt sé að ná sambandi við Norður- og Austurland og eins til útlanda síðan Ísafjarðarálman var opnuð til afnota. Sérstaklega hafa orðið brögð að þessu síðan skip byrjuðu að ganga til Vesturlandsins nú í vor.

Það hefir nú verið varið 700,000 kr. til símalagninga hér, og reyndin hefir orðið sú, að þessu fé hefir verið vel varið. Það hefir þegar borið mjög góða vexti. En þá verður líka að halda símakerfinu í mjög góðu standi, og til þess er nauðsynlegt að strengja viðbótarþræði norður til Borðeyrar.

Í stjórnarfrumvarpinu var gert ráð fyrir aukaþræði frá Reykjavík til Borðeyrar, sem mundi kosta 48 þús. kr. En nú hefi eg fengið þær upplýsingar hjá símastjóranum, að kopar hafi fallið í verði, og mundi þráðurinn því ekki kosta meira en 45 þús. kr.

En ef þessi tillaga skyldi falla, þá óska eg eftir, að borin verði upp varatillagan um að leggja koparþráð frá Reykjavík til Norðtungu. Eftir sögn símastjórans mundi það verða til töluverðra bóta, þó að þráðurinn næði ekki lengra, því að þá væri fyrirbygð sú truflun, sem annars kann að stafa af Akraness- og Borgamesslínunum þegar þær koma. Væri því með þessu bætt úr brýnustu nauðsyninni.

Þá eru 12 þús. kr. til aukaþráðar frá Akureyri til Valla í Svarfaðardal. Sú tillaga er bygð á upplýsingum frá landsímastjóranum, og skal eg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þann kafla í bréfi hans, sem að þessu lýtur:

»Í sambandi við þetta vil eg taka fram, að nauðsynlegt verður að strengja nýja talsímalínu milli Valla og Akureyrar, ef hin fyrirhugaða símalagning til Siglufjarðar verður samþykt.

Þegar í fyrra var þetta línusvæði svo mikið notað, einkanlega í júlí og ágústmánuði, að gegnumgangssamtölum seinkaði talsvert, þar eð þau urðu að bíða þess, að afgreidd væru innbyrðis samtöl og símskeyti milli stöðvanna: Akureyrar, Fagraskógs, Hjalteyrar, Valla og Dalvíkur; þar við bætist í ár Ólafsfjörður».

Þegar það er nú upplýst, að þessi lína var svo mikið notuð í fyrra sumar, að það seinkaði mjög samtölum, þá má geta nærri, hve mikil brögð verða að slíkri truflun í sumar, þar sem bætt

hefir verið við Fáskrúðsfjarðar-síma, Húsavíkur-síma og Ólafsvíkur-síma. En svo bætist Siglufjarðar-síminn enn þar við og aukast þá vandræðin um allan helming. Því að sú lína verður eflaust svo mikið notuð, að það verður til að eyðileggja að miklu leyti gagnið af landsímanum, ef ekki verður aðgert. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að fá aukaþráð til Valla, og eg vona, að háttv. deild samþykki þá tillögu. Ef sá aukaþráður verður ekki lagður, þá er það sama sem að fleygja frá sér alveg vísum ágóða, sem nemur miklu meiru en vöxtunum af þeirri upphæð, sem aukaþráðurinn kostar. Það er óhætt að fullyrða, að tekjuaukinn mundi nema jafnvel þúsundum strax á næsta sumri. Og eg vil benda á það, að ef deildin vill ekki samþykkja þessar 12 þús. kr. fjárveitingu, þá er sjálfsagt að fella Siglufjarðarsímann, því að þá kæmi hann ekki að neinu verulegu gagni fyrir Siglufjörð, en yrði hins vegar til ómetanlegs ógagns fyrir aðra landshluta. Þess vegna er það varatillaga mín, að Siglufjarðarsíminn, liður 1, verði feldur burt ef aukaþráðurinn verður ekki samþyktur, og bið hæstv. forseta að haga atkvæðagreiðslunni eftir því.

Þá vil eg minnast nokkuð á breyt.till. á þgskj. 710. Eg var ekki sammála meiri hluta nefndarinnar um að fella burtu fjárveitinguna til brúar á Norðurá. Eg álít óhæfilega litlu fé varið til samgöngubóta í landinu eftir þessum fjárlögum. Það hefir verið góð og gild regla að byggja að minsta kosti eina stóra brú á hverju fjárhagstímabili. Þeirri reglu ættum við að halda enn. Nú hefir Rangárbrúin verið feld, og þá vil eg ómögulega láta Norðurárbrúna falla líka.

Sama er að segja um Grímsnesbrautina. Þar er um nauðsynlega vegabót

að ræða, og eg sé enga ástæðu til að fella burtu þessa 10 þús. kr. fjárveitingu til hennar.

Þá er Lagarfljótsbrúarvegurinn. Fjárveitingin til hans er víst komin inn á fjárlögin að tilhlutun hæstv. ráðherra eftir samráði við verkfræðing landsins, og eg álít því, að hún hljóti að vera bygð á góðum rökum. Eg get því ekki verið samdóma meiri hluta nefndarinnar um það, að fella niður þessa fjárveitingu.

Þá er 13. gr. E. I. a., það eru 1000 kr. laun til eftirlits með vitum. Þann lið vill meiri hluti nefndarinnar lækka niður í 700 kr., en um það get eg ekki verið henni samdóma. Þegar frumv. kom hingað til deildarinnar, þá þótti mér sú upphæð alt of lág, 1500 kr., sem ætluð var til eftirlits með vitum. Vitakerfið er orðið svo stórt, að það hlýtur að útheimta mikið eftirlit ef vel á að vera. Og það ríður á að eftirlitið sé gott. Það er hægt að forsvara það, að hafa enga vita; en það er alveg óforsvaranlegt, að þeir vitar, sem til eru, séu vanræktir. Það sér hver maður, hve mikil hætta getur af því stafað, ef viti er ýmist með ljósi eða ljóslaus. Starfræksla vitanna má til að vera í góðri reglu, og því þarf eftirlitið að vera sem allra bezt. — Mér þótti 1500 kr. of litið, en eingöngu af því, að Krabbe lýsti því yfir, að hann gerði sig ánægðan með 1000 kr. laun auk ferðakostnaðar, þá var eg samþykkur því að hafa fjárveitinguna ekki hærri en það, auk 500 kr. til ferðakostnaðar. En nú vill nefndin klípa af upphæðinni og ætlar manninum ekki nema 700 kr. laun fyrir svona umfangsmikið og áríðandi starf. Þessu get eg ekki verið samdóma, og vona að háttv. deild verði á sama máli. því fremur sem verkfræðingur Krabbe hefir lýst því yfir, að fyrir svo litla borgun gæti hann ekki tekið að sér starfið.

Hvað snertir styrkinn til að rita og gefa út ítarlegt rit um þjóðréttarstöðu landsins, þá er eg sammála nefndinni um að færa þennan styrk niður. Eg hefði þó helzt viljað fella hann alveg. Ekki af því, að eg sé á móti málinu í raun og veru, heldur af því, að eg vil ekki láta þennan styrk standa sem pólitískt agn á fjárlögunum. Það væri betra að veita slíkan styrk eftir á, þegar ritið er búið.

Hinar breyttill. nefndarinnar eru svo smáar, að eg sé ekki ástæðu til að fara neitt út í þær. Þó vil eg að eins minnast á 1000 kr. styrk til Jónínu Sigurðardóttur til matreiðsluskólahalds. Þann styrk vill nefndin færa aftur niður í 500 kr. Eg skil ekki í þessari grimd í nefndinni, því að hún hefir annars samþykt ýmsa bitlinga, sem minna hafa til síns máls. Þessi kvenmaður hefir lagt töluvert fé sölurnar og hefir sýnt mikinn áhuga og dugnað í að halda uppi slíkri fræðslu. Á Norðurlandi er mikill áhugi á þessu máli og kenslan mjög mikið sótt, enda er hér um að ræða þann fróðleik, sem almenningur hefir þörf fyrir. Eg skil sízt í því, ef háttv. deild fer að lækka þennan styrk í annað sinn. Það var sök sér að gera tilraunina um daginn, en úr því Nd. vill halda fast við 1000 kr. styrk, þá finst mér að háttv. deild ætti ekki að halda þessari 500 kr. lækkun til streitu.