29.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Steingrímur Jónsson:

Eg er samþykkur frumvarpinu í aðalatriðum. Starf nefndarinnar álít eg gott, því nú er frumvarpið frambærilegra, en þegar það kom frá Nd.

En eg hefði þó kosið, að ekki hefði verið farið lengra í þessu frumv., en farið var í lögunum frá 1907, að því er snertir Reykjavík og Hafnarfjörð. Eg skil ekki að það sé ástæða til að taka upp það nýmæli, að hjúum sé gefinn kosningarréttur og kjörgengi í sveitamálum. En vilji menn gera þá breytingu, þá er heppilegra að gera það á annan hátt, nefnilega með því að leysa vistarbandið. Kosningarréttur og kjörgengi hjúa er ósamrýmanlegt við vistarskylduna, sem nú er. Eg tel réttara að bíða með þetta mál, rýmkun kosningarréttarins fram yfir það sem gert var í lögunum frá 1907, þangað til þing og þjóð eru búin að átta sig á því, hvort þannig löguð lagaskipun er holl eða ekki.

Beinlínis stór athugavert tel eg það, að gefa hjúum rétt og skyldu til að taka við kosningu. Þau verða að hafa rétt til að skorast undan kosningu, því að þau eru bundin, geta ekki tekið við henni nema með leyfi húsbónda síns.

Eg vildi ekki láta hjá líða að benda á þetta. Eg álít það óþarfa byltingu, að ganga þetta lengra en lögin 1907, meðan vistarbands-skyldan er ekki af numin að öllu leyti.