04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ráðherra (B. J.):

Háttv. nefnd vill koma Borgarfjarðarbrautinni fyrir kattarnef. En eg get ekki talið það hyggilegt. Eg vil taka í sama streng sem háttv. 4. kgk. þm., að mér sýnist ekki forsjálni í því að hætta sama sem alveg við vegabætur á þessu fjárhagstímabili. Eins og eðlilegt er, hefir þinginu vaxið það í augum eftir því sem nú er ástatt fyrir landsjóði, að ætla sér að brúa 2 allstórar ár á sama fjárhagstímabili, Rangá og Norðurá. En þegar búið er að fella burtu Rangárbrúna, þá finst mér of langt farið, ef Norðurárbrúin verður feld líka. Það er nokkuð aumingjalegt, að treysta ekki landinu til að gera eina brú á fjárhagtímabilinu, brú, sem kostar ekki nema 30 þús. kr. Það má ekki leggja alveg árar í bát með vegagerðir, og gera ekki annað en halda við þessum vegaspottum, sem til eru. Enda er þarflaust að fara svo frekt í sakir. Þessi Borgarfjarðarbraut er ekki nema hálfgerð ennþá, en brúin á Norðurá mundi auka gagn hennar að miklum mun. Þetta er akbraut, sem liggur um fjölmennar og blómlegar sveitir. Hún nær nú ekki lengra en upp að Norðurá, en þegar brúin er komin yfir hana, er þar með búið að koma öllum Stafholtstungum í akbrautarsamband við kauptúnið (Borgarnes). Ef þessari brúargerð verður frestað nú, verður vafalaust talið sjálfsagt að láta þá vegabót ganga fyrir öðrum á næsta þingi og þá væntanlega veitt fé til hennar í fjáraukalögum og brúin þá væntanlega lögð sumarið 1911. Þá verður það ekki mikið fé, sem sparast á biðinni; það verða í mesta lagi eins árs vextir af þessum 30 þús. kr. Eg tel miklu gagnlegra að halda áfram þeim brautum, sem hálfgerðar eru, heldur en að vera að leggja spotta og spotta hér og hvar, en lúka hvergi verkinu svo, að fullu gagni komi.

Líkt má segja um 10 þús. kr. fjárveiting til Grímsnesbrautar, sem nefndin vill einnig fella. Þar stendur svo á, að Sogsbrúin kemur að nauðalitlu gagni, þangað til gert verður við torfæru, sem þessi fjárveiting á að ganga til.

Líkt stendur á um Reykjadalsbraut. Þar má greiða veg yfir verstu torfæruna fyrir 10 þús. kr.

Þessar fjárveitingar allar vil eg láta standa, en einkum legg eg áherzlu

á Borgarfjarðarbrautina eða brúna á Norðurá.

Þá vill nefndin fella burt 4000 kr. til Lagarfljótsbrúarvegar. Þar þekki eg ekki til sjálfur, en eftir skýringu verkfræðings landsins get eg mælt með því, að þessi liður verði látinn standa. Fagradalsbrautin liggur ekki að brúnni á Lagarfljóti, heldur að Egilsstöðum, sem er nokkuð ofar við fljótið. Sá sem vill komast yfir fljótið með vagnflutning, verður því að taka af vagninum á Egilsstöðum, því að hann getur ekki komizt að brúnni vegna torfæru, sem þar er í milli. Þegar úr þessu má bæta með 4000 kr. fjárveitingu, þá finst mér ekki horfandi í það. Því að eg geri ráð fyrir, að það sé mikilsvert fyrir flutningsmanninn, að komast með vagninn yfir brúna, og að það sé svo greiðfært hinumegin, að vagninn geti haldið áfram þaðan.

Þá hefir háttv. 4. kgk. þm. amast við heimildinni, sem stjórninni er veitt í 13. gr. c. 1., til þess að semja um gufuskipaferðirnar fyrir 10 ára tímabil með tilteknum skilyrðum. Eg sé ekkert athugavert við þessa heimild og skil ekki, hvernig hún gæti orðið vanbrúkuð. Hún getur orðið til þess, og á að verða til þess, að knýja fram betri kosti en annars væri hægt að fá. Aðalatriðið er það, sem líka er gert að skilyrði, að samningur takist um skip, sem væru svo útbúin, að þau gætu flutt út nýjar vörur frá Íslandi í kælirúmi. Það er skýrt tekið fram, að minst tvö skipin skuli vera með kælirúmi. Þetta er aðalatriðið, að fá skip, sem þannig eru útbúin, og þetta var aðalkosturinn við Thore-tilboðið í augum þeirra manna, sem því boði vildu sinna. Ef þessu verður kipt í gott lag, verð eg að telja vel til vinnandi að ganga að 10 ára samning. En eg geri hins vegar ekki

ráð fyrir, að nokkur stjórn geri sig ánægða með svo lítilfjörleg kælirúm, að þau kæmu ekki að verulegu gagni.

Háttv. þm. vildi ekki telja það kost á slíkum samningi, þó að beinar samgöngur fengjust til Hamborgar. Þetta get eg ómögulega skilið. Háttv. þm. bar það fyrir, að íslenzkir kaupmenn hefðu ekki lánstraust á Þýzkalandi. Þetta getur vel verið. En þá eru beinar samgöngur fyrsta skilyrðið til þess, að afla sér þessa lánstrausts, sem nú vantar. Að hafa á móti beinum samgöngum við Þýzkaland getur ekki þýtt annað en það, að vilja halda verzlunarviðskiftum landsins í sem föstustu tjóðurbandi við Danmörku. Nú þegar er mikið keypt af vörum frá Þýzkalandi, þrátt fyrir það að þær verða allar að koma hingað til landsins gegnum Danmörku. Þessi þröskuldur stendur í vegi fyrir því, að viðskiftin við Þýzkaland aukist, líklega til stórskaða fyrir verzlun landsins. Eg get ekki skilið, með hverjum rökum er hægt að hafa á móti því, að koma á beinum samgöngum við Þýzkaland, jafnhliða samgöngunum við Danmörku.

Eg álít að þessi athugasemd gæti orðið til góðs. Að vísu má segja, að ekki séu miklar líkur til þess, að slíkur samningur takist, en þá nær það mál ekki lengra.

Þá er fjárveitingin til rits um þjóðréttarstöðu landsins. Eg skil ekki vel afstöðu háttv. deildarmanna til þess máls. Þeir menn, sem koma vilja sem lengst áfram sjálfstæðismáli þjóðarinnar, þeir vilja nema við neglur sér fjárframlag til þess, að rita svo vel um málið, að til gagns verði og sæmdar þjóðinni. Eg lít svo á, að það væri ekki lítils virði, að eiga »monumentalt« ritverk um þetta mál. Slíkt rit hlyti af hafa það sönnunarmagn, sem frekast væri hægt að fá um ýmis atriði í þjóðréttarsögu landsins. En til þess að ritið geti orðið svo vel úr garði gert, má ekki skera fjárframlagið mjög naumt við neglur sér.

Það er ekki til neins að tala um borgun eftir á fyrir slíkt verk. Það dettur engum hæfum manni í hug, að leggja út í svo stórt og mikið starf, án nokkurrar tryggingar fyrir því, að hann fái endurgjald fyrir fyrirhöfn sína. Auk þess sem fæstir hafa tök á að eyða tíma sínum til slíks kauplaust, meðan að því er unnið. Því að allir verða þó fyrst og fremst að hugsa um að hafa í sig og á. Eg lít svo á, að það sé naumast sæmilegt, að pína þetta fjárframlag svo mikið niður, að sýnilega verði ekkert af verkinu.

Hér er í lánveitingagreininni gert ráð fyrir 6 þús. kr. til embættisbústaðar handa sýslumanninum í Rangárvallasýslu. Það er stungið upp á að færa þetta niður í 4 þúsund. Það er sitt hvað sem mælir með því, að þessi fjárhæð (6 þús.) sé ekki færð niður, heldur látin standa, og ívilni þá landsjóður jafnframt um vöxtu af 2000 kr. Viðlagasjóður stendur jafnréttur eftir sem áður, og það væri smámunasemi, að láta sig muna um slíkt. Það er auk þess svo mikið hagræði fyrir landið, að fastir embættisbústaðir komist á fyrir sýslumenn (og enda lækna), eins og vér höfum lengi haft fasta embættisbústaði fyrir presta. Og sé hægt að koma því til leiðar með svona litlu framlagi, þó ekki sé nema í einni sýslu í þetta sinn, þá finst mér algjörlega rangt, að láta sig muna um slíkt.

Um ritsímafjárveitingar hafa verið dregin allmjög saman seglin á þessu þingi, meðal annars neitað 68 þús. til umbóta (tvöföldunar) á Ísafjarðarsímanum, og ennfremur neitað um fyrirhugaðan síma frá Búðardal til Stykkishólms. Þetta virðist mér sæmilega langt farið í því, að hefta viðkomu á þessum samgöngufærum. Þó hefir verið annars vegar stungið upp á nýjum símum og símaspottum annars staðar á landinu eða umbótum á þeim, þar á meðal spottanum milli Akureyrar og Valla og milli Reykjavíkur og Norðtungu. Skilst mér eftir skýrslu símastjórans, að þessar umbætur muni gera töluvert gagn og gera þessar símaleiðir miklum mun gagnsmeiri en áður. En það er um símana að segja yfirleitt, að þótt þeir séu að öllu samanlögðu byrði á landsjóði, þá ber á það að líta, að það væri misrétti við einstakar sýslur og landahluta, ef þeir væru gerðir afskiftir í samanburði við aðra, og virðist þá rétt að fara sem lengst í því, að skaðlausu landsjóði, að gera sýslunum sem jafnast undir höfði. Og ber á það að líta, að notkun símanna fer á ári hverju vaxandi. Mér hefði fundist réttast, að gjörð hefði verið í upphafi áætlun um, hvar síma skyldi leggja um land alt, og ætlað til þeirra eitthvað tiltekið á hverju ári eða tekið lán, og því jafnað á 10—15 ár eða svo.