02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Framsögumaður (Jósef Björnsson):

Eg skal víkja nokkrum orðum að breytingartillögum þeim, er fram eru komnar við frumvarp þetta. Sný eg mér fyrst að breytingartillögunni á þskj. 418. Hún fer fram á að fella burt, að vinnuhjú hafi kosningarrétt. Þeirri tillögu er nefndin algerlega mótfallin. Henni virðist sjálfsagt, að vinnuhjú fái þenna rétt, sem lausafólk hefir þegar öðlast. Munurinn á þessum stéttum er sá einn, að hjúin ráða sig til lítið eitt lengri tíma; lausafólk ræður sig oft til ½ árs eða jafnvel lengri tíma í einu. Að láta lausafólk hafa kosningarrétt, en vinnuhjú ekki, er í raun og veru ekkert annað, en að leggja réttindamissi við því, að ráða sig í vist, sem þó er heppilegasti ráðningarmátinn bæði fyrir vinnuveitendur og verkamenn. Nefndin aðhyllist fyrri breytingartillöguna á þskj. 371, að vinnuhjú skuli ekki hafa kjörgengi. Það má að vísu deila um, hvort það sé ekki með öllu óþarft, þar sem mjög sjaldan myndi hafa til þess komið, að vinnuhjú hefðu tafist frá störfum í þarfir húsbænda sinna, sakir þess að þau hefðu átt sæti í hreppsnefndum eða bæjarstjórnum, því að ekki er líklegt, að mörg hjú yrðu kosin til slíkra starfa. En nefndin hefir þó getað sætt sig við, að fara ekki lengra að þessu sinni, en að veita þeim kosningarrétt. Hún tekur því aftur breytingartillögu sina við 2. gr. á þskj. 372. Nefndin hefir ekki getað fallist á 2. breyt.till. á þskj. 371, að fella burt að konur mættu skorast undan kosningu. Nefndin játar að vísu, að konur á þann hátt fái réttindi fram yfir karla, og að svo ætti í raun og veru ekki að vera, en þegar á hitt er litið, hve mjög því fer fjarri, að konur enn sem komið er hafi jafnrétti við karla í öllum efnum, þá virðist það ekki skifta miklu, þótt þær í þessu atriði séu betur settar. Nefndin vill þess vegna ekki fella undanþágu þessa burtu að svo stöddu, enda þótt hún játi, að hún sé í sjálfu sér óeðlileg.