02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Steingrímur Jónsson:

Nefndin hefir ekki tekið vel breytingartillögu þeirri, sem eg á á þgskj. 418. Eg gat þess þegar við 2. umræðu, að eg teldi ákvæði frumv. þessa um, að veita konum kosningarrétt og kjörgengi í sveitar- og bæjarmálum, koma í bága við hin gildandi vinnuhjúalög, tilsk. frá 23. jan. 1866, og að ef menn vildu veita hjúunum þessi réttindi, þá væri bezta og einfaldasta aðferðin að af nema vistarbandið um leið.

Mér virðist breyting sú, er hér er farið fram á, töluvert byltingarkend.

Á síðasta þingi var eftir miklar umræður samþykt, að veita konum kosningarrétt og kjörgengi til jafns við karlmenn í 2 bæjum. Þetta átti að vera tilraun, er af mætti sjá, hvort hættulaust væri að rýmka kosningarréttinn. Eg álít, að rétt væri að láta þá réttarbót ná til allra hreppa- og bæjarfélaga í landinu, en heldur ekki að fara lengra að svo stöddu. En nú á að eyðileggja þessa tilraun með því, að bæta við nýjum flokki af kjósendum. Þetta kalla eg byltingarkent. Hjúin hafa heldur alls eigi beðið um þessi réttindi, og það kemur ekki af því, að þau geti ekki látið til sín heyra, ef þeim væri þetta áhugamál. Þau gætu það að minsta kosti alt eins vel og konurnar, sem nú eru teknar að krefjast jafnréttis við karlmenn. Sannleikurinn er sá, að hjúunum er það ekkert áhugamál, að fá þessi réttindi; það er annað sem þeim er áhugamál, það er að fá vistarbandið af numið. Þetta er ekkert annað en þing-»radikalisme«. Eg veit ekki, hvað þeim gengur til, er fyrir þessu máli berjast; eg vil ekki gera ráð fyrir að ástæðurnar séu óheiðarlegar, en það eitt er víst, að hjúin hafa ekki krafizt þessara réttinda. Þá er það annað atriði í þessu máli, sem er athugavert, og sem eg vona að hin háttv. deild íhugi vel, og það er, hvað er verksvið sveitanefnda og bæjarstjórna, og hvaða vald þær hafa. Aðalverk þeirra er að stjórna fjármálum hreppanna og bæjanna. Og það starf er mjög þýðingarmikið, einkum eftir að hin nýja skipun er komin á fræðslumálin. Hver er sú meginregla, sem þingið hefir sett, að því er snertir álagning sveitargjaldanna? Hún er sú, að þeim gjöldum beri að jafna niður eftir efnum og ástæðum. Þá reglu tel eg rétta, og einu færu leiðina, en þá má heldur ekki láta þá, sem fátækastir eru og minst gjalda, ráða mestu um ráðstafanir hreppa- og bæjarsjóðanna. Það er mjög hætt við, að með því móti verði efnamennirnir alt of hart úti. Eigi að leggja fjárveitingarvald það, sem hér um ræðir, í hendur fátækasta fólkinu, þá verður líka að takmarka rétt hreppsnefnda og bæjarstjórna til þess að auka álögurnar meira en nú er gert. Eg geri ekki ráð fyrir, að mér aukist vinsældir af tillögum mínum til þessa máls, en eg met meira, hvað satt er og rétt í hverju máli, en hvernig það mælist fyrir.

Þá liggja fyrir breyt.till. á þgskj. 371 og 372. Síðari breyt.till. á þskj. 372 er tekin aftur og hin fyrri er að eins orðabreyting, svo að hér koma að eins til greina breyt.till. á þgskj. 371. Þær eru tvær. Verði mín till. samþ., fellur hin fyrri burtu; verði mín till. ekki samþykt, mun eg greiða henni atkvæði mitt, af því að það er, eins og eg hefi þegar tekið fram, í mínum augum sjálfsagt, að hjú geti ekki haft kjörgengi. Það er ekki hægt gagnvart húsbóndanum og kemur í bága við hjúalögin, að láta hjú hafa þennan rétt, þó það sé í sjálfu sér óeðlilegt, að kjörgengi fylgi ekki með kosningarrétti.

Síðari breyt.till. fer fram á það, að tekinn sé af konum rétturinn til að skorast undan kosningu. Eg er samdóma háttv. framsm. um það, að í rauninni sé það óeðlilegt, að konur hafi þennan undanþágurétt, en álít samt ekki »praktiskt«, að taka hann af þeim. Að vísu mundi konum sjaldan verða þröngvað til að taka við kosningu, ef þær hefðu ekki kringumstæður til þess, en eg tel samt réttast, að láta þær halda þessum rétti framvegis, þó eg sé í sjálfu sér mest hneigður til að greiða atkvæði með breyt.till.