02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Steingrímur Jónsson:

Háttv. framsm. tók fram, að þess væri dæmi, að menn vildu ekki fara í vist vegna þess, að þeir mistu kosningarrétt sinn við það. Eg veit að þess eru dæmi, en það eru líka þær einustu raddir hér á landi í þessa átt. Og þessum mönnum er frjálst að gjöra eins og þeim sýnist; vilji þeir halda kosningarréttinum, geta þeir slept að fara í vist.

Háttv. þm. sagði í fyrri ræðu sinni, að lausamenn hefðu ekki meiri verðleika en vinnumenn, til að hafa kosningarrétt. Það má vera. En það verður að taka tillit til þess, sem eg hefi margsinnis bent á, að húsbóndi getur samkvæmt hjúalögunum bannað hjúum sínum að neyta kosningarréttarins. Að minsta kosti getur hann gert það óbeint. Hann getur sagt við hjúið: »Þetta verk skaltu vinna í dag«, og meinað því þannig að fara á kjörfund, því að eg býst ekki við því, að alþingi fari að lögbjóða það, að kosningadagur skuli vera frídagur. Og sé þetta rétt, þá geta húsbændur líka haft óleyfileg áhrif á kosningar. Hugsum okkur, að tveir húsbændur séu á sama máli um sveitamál. Annar hefir 4 hjú, sem áhugalítil eru um sveitamál og hafa enga ákveðna skoðun. Hann pínir þau til að fara og greiða atkvæði með þeim málstað, sem hann fylgir. Hinn hefir önnur 4 hjú, sem eru á annari skoðun en hann, og hann bannar þeim að fara að greiða atkvæði. Þannig gæti útkoman orðið skökk. — En auk þess eru í lausamannaflokknum einmitt þeir menn, sem samkvæmt kringumstæðum sínum eiga að sjálfsögðu að hafa kosningarrétt. Útsvaraskrár sýna það, að víðast hvar borga lausamenn hærra útsvar en vinnumenn, en eru þó viðlíka efnum búnir og þeir. Auðvitað verður aldrei hjá því komist, að misjafnir menn séu í hverri stétt.

Þá talaði háttv. framsm. um það, að það væru engin mótmæli gegn þessum lögum, að þau væru bara uppfundning þingmanna. Jú, það er það einmitt! Ef menn skoða þær umbætur í pólitiskum og persónulegum efnum, sem gerðar hafa verið í hvaða landi sem er, þá sjá menn það, að þær eru allar til orðnar fyrir »press« að neðan. Enda á það svo að vera. Það er eðlilegast, að slíkar breytingar verði fyrir áleitni þeirra manna, sem við þær eiga að búa. Þá fyrst er trygging fyrir, að þær komi að gagni. En ef þær koma frá utanstéttarmönnum, þá er engin trygging fyrir, að þær verði að gagni; þeir geta ekki fundið eins vel og hlutaðeigendur sjálfir, hvort þörfin er og hve mikil hún er.

Ennfremur mintist háttv. framsögum. á þá ástæðu mína, að fjármálum sveita mundi hætta búin af kosningarrétti hjúa. Hann hélt það væri óhjákvæmilegt og ekki hætt við, að þeir fátækari bæri þá efnaðri ofurliði. Eg skal benda honum á dæmi frá Danmörku. Í dönskum blöðum er nú sem stendur rætt og ritað mikið um, hvernig hagur sé í bæjum utan Hafnar. Þeim er talinn háski búinn af samtökum vinnumanna. Í Esbjerg og fleiri bæjum hafa vinnumannafélögin, gegnum samtök vinnumanna, komist í meiri hluta í bæjarstjórninni, og þykir þar farið æði léttúðlega á stað, svo að ástandið er orðið allískyggilegt. Verði hjúum veittur kosningarréttur hér, má búast við að það verði ekki lengur helztu bændur, sem hafi sveitamál til meðferðar, heldur komist meðferð þeirra í hendur annara manna. Hvort það verður til góðs eða ills, er ekki sagt. Má vera, að það verði til góðs, en það getur líka orðið til ills.