02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Sigurður Hjörleifsson:

Eg held ekki, að eins mikil hætta stafi af að veita hjúum kosningarrétt, eins og háttv. 4. kgk. þm. álítur. Eg veit ekki betur, en að rétturinn til að hækka álögur í hreppunum sé takmarkaður af æðra umboðsvaldi, með líkri takmörkun sem í sveitalögunum dönsku.

Til viðbótar við það, sem háttv. 2. þm. Skagf. sagði, skal eg benda á það, að í frumvarpi því til stjórnarskrárbreytingar, sem nú liggur fyrir alþingi, er gert ráð fyrir, að hver karlmaður, sem er 25 ára að aldri, hafi kosningarrétt til alþingis. Ef þessi breyting verður að lögum, sem ekki er ólíklegt, liti það undarlega út, ef neitað væri um lægri réttinn, kosningarrétt til sveitastjórna, um leið og þessi hærri réttur er veittur.

Um þá alvarlegu spurningu, hvort konur skuli hafa undanþágurétt frá kosningu, var það aðallega háttv. 2. kgk. þm. sem talaði. Eg játa, að mér er ekki full-ljóst, hvað hann fór. Mér skildist hann í byrjun ræðu sinnar hallast að því, að það væri óeðlilegt, að kvenmenn hefðu þennan undanþágurétt, en í síðari hlutanum heyrðist mér hann vera ákveðinn með því, að þær hefðu hann. Eg hallast að þeirri skoðun, sem hann hélt fram í síðari hluta ræðu sinnar. Giftar konur geta óneitanlega stundum verið forfallaðar, — og enda ógiftar líka, og þegar um verkaskifting er að ræða, er sjálfsagt að taka tillit til þess, þannig að konur séu undanþegnar opinberum störfum, meðan þær eru forfallaðar. En það er ekki rétt, að verkaskiftingin komi fram í því, að sumir hafi réttindin, en sumir ekki. Ef ætti að útiloka heila flokka manna frá kosningarrétti, mætti alveg eins fela einstökum mönnum að kjósa; það væri lítið meira órétti. Auðvitað ber að taka tillit til hinnar náttúrlegu verkaskiftingar. En hún gefur ekki ástæðu til annars, en að veita konum undanþágurétt. Hún gefur ekki ástæðu til að neita þeim algjörlega um kosningarrétt og kjörgengi.