04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Steingrímur Jónsson:

Ráðherra og framsögumaður eru samdóma um fjárveitinguna til gufuskipaferðanna. Annars get eg ekki skilið á hverju það byggist, að ekki hafi verið hægt að líta við tilboðinu í fyrra; það var ákveðið. Og þó þótti mér það varhugavert og ekki takandi nema með þeim varnagla, að stjórnin gæti styrkt fleiri félög. Þá lá og fyrir að byggja tvö ný skip. Þetta er alt annað en sú óákveðna heimild, sem nú er um að ræða. Það er hverju orði sannara hjá hæstv. ráðh., að það er nauðsynlegt að semja um meira en tvö ár til þess að fá verulega góðar ferðir. Það er einkum umferðaskip og ferðir til útlanda, sem þörf er að fá umbætur á. Eg sé ekki, að athugasemdin herði neitt á Samein. fél. í þá átt; það er ekkert tekið fram um gæði skipanna, að eins tiltekið kælirúm í tveim skipum. En eg get vel skilið, að 10 ára tímabil mundi nokkuð herða á því félagi, sem vildi spekúlera í Hamborgarferðunum; því slíkt yrði að sjálfsögðu dýrt, og við mundum neyðast til að kaupa þær fyrir aðrar nauðsynlegar umbætur. Yfir höfuð skal eg fúslega kannast við, að það gæti komið oss að góðu haldi, að komast í viðskiftasamband við Hamborg. En það er ekki einhlítt að fá aukna flutninga. Við þurfum engu síður aukna »kredit«. Hvað persónuflutninga snertir, þá hygg eg að þeir verði mjög miklir. Eg hefi alt af hugsað mér, að fyrstu skipin, sem við sendum til Hamborgar, ættu að sækja kaffi, sykur og þessk. Þess utan skal eg taka það fram, að ekki væri heldur ástæða til að binda sig við Hamborg eina, heldur ættum við einnig jafnframt að hugsa um að komast í beint samband við fleiri stórhafnir.

Eg vil og leyfa mér að taka það fram, að mér flnst ástæðulaust að bera mér það á brýn, að eg vilji halda oss föstum í tjóðurbandi Dana. Það er mjög langt úr vegi við allan sannleik.

Hinn háttv. framsögumaður gat þess, að á þessum fjárlögum væri veitt töluvert fé til flutningabrauta og þjóðvega Það eru heilar 75 þús. kr., sem veittar eru til flutningabrauta, og það sem veitt er undir 13. gr. B. III. fer ekki nærri alt til þjóðvega; inn á þann lið eru komnar fjárveitingar til sýsluvega, hreppavega og jafnvel vega, sem enginn veit hvað eru. Það var alveg rétt hjá hæstv. ráðherra, að meginregla sú, er fylgt er í þessum fjárlögum, er að hætta alveg að leggja nokkurt fé til flutningabrauta og þjóðvega. Einasta myndarlega fjárveitingin til þjóðvega er til brúnna á Holtavörðuheiði, en hitt skal eg fúslega viðurkenna, að það var mikið sómasamleg upphæð, sem í þessu skyni var veitt á fjáraukalögunum. Eg get ekki fallist á það sem háttv. framsögumaður sagði, að 700 kr. væri nóg viðbót handa eftirlitsmanni vitanna. Það ber brýna nauðsyn til að eftirlitið með vitunum sé fullnægjandi, því að það er hvorttveggja, að það er þjóðarskömm og getur orsakað stórslys, ef eitthvað verður að þeim fyrir eftirlitsleysi, og eg vil þvo hendur mínar af að hafa tekið þátt í að knífa þessa bráðnauðsynlegu fjárveitingu. Eg þakka hæstv. ráðherra fyrir tillögur hans að því er símana snerti, og vona eg að deildin fylgi þeirri bendingu hans. Það er ekki vafi á, að símarnir verða góð tekjugrein fyrir landsjóðinn, og verði þessir þræðir lagðir, er eg viss um að það gerir það að verkum, að hægt verður á næsta þingi að segja, að símarnir gefi mjög góðar rentur. Það var hárrétt hjá hæstv. ráðherra, að það hefði ekki átt að fella niður fjárveitinguna til koparþráðarins til Ísafjarðar, því að í fyrsta lagi verð eg að líta svo á, að honum hafi beinlínis verið lofað af síðasta þingi; í öðru lagi er það vitanlegt, að síminn kemur ekki að hálfum notum fyrir héruðin fyrir vestan Ísafjörð, nema þráður þessi verði lagður; í þriðja lagi hafa verið lagðar þungar fjárkvaðir á héruð þau, er hér eiga hlut að máli, einmitt símans vegna, og loks ber og á það að líta, að enn er miklu óeytt af láni því, er tekið var á þessu fjárhagstímabili, og sérstaklega átti að verja til símabygginga. Mér þótti vænt um það sem hæstv. ráðherra sagði um Reykjadalsbrautina, að bráða nauðsyn bæri til, að komast sem fyrst með brautina út úr verstu ófærunum, og eg treysti því, að háttv. deild líti sömu augum á málið, og sýni þá sanngirni að veita til hennar jafnmikið fé eins og gert var í stjórnarfrumvarpinu.