14.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Frams.m. (Ágúst Flygenring):

Eg hefi lítið um frv. þetta að segja umfram það, sem tekið er fram í nefndarál. Frumv. er fram komið að tilstilli nokkurra verzlunarmanna og sniðið að mestu eftir lögunum um iðnaðarnám frá 16. sept. 1893. Það er lagað eftir því, sem hentugt þykir í kaupstöðum, og á að eins að ná til þeirra, sem mun stafa af því, að flutningsmenn frumv. hafa álitið erfitt, að útvega nemendum þá fræðslu í kauptúnum alment, sem nauðsynleg er eftir frumvarpinu.

Þá vil eg víkja nokkrum orðum að breytingartillögum nefndarinnar. Fyrst er sú breyting, að nefndin vill lengja reynzlutímann eða þann tíma, sem ætlaður er til þess, að nemandi og húsbóndi geti komist að fastri niðurstöðu um það, hvort þeir vilji standa við námssamninginn. Þetta tímabil er eftir frumv. 1 mánuður, en nefndin leggur til að það verði 3 mánuðir. Tíminn má ekki vera styttri, þegar litið er til þess, hve unglingum er oft erfitt að komast að niðurstöðu um það, hverja lífsstöðu þeir vilji velja sér. Á einum mánuði getur unglingurinn ekki fengið neina verulega hugmynd um starfið, og húsbóndinn ekki heldur kynst unglingnum svo að ábyggilegt sé.

Þá er ákvæði 6. gr. um, að húsbónda skuli skylt að reka nemanda burt úr vistinni, ef hann gerir sig sekan í óráðvendni. Þetta þykir nefndinni alt of hart ákvæði og leggur til, að í stað skyldunnar sé húsbónda að eins gefið til leyfis, að reka unglinginn frá námi af þessum ástæðum. Smávegis óráðvendni getur oft komið til af gáleysi eða slæmu uppeldi, og getur vel staðið til bóta, ef vel er að farið. En ef það væri bein skylda, að reka nemanda burt fyrir slíkar smásakir, gæti það oft orðið til þess, að beina honum inn á glæpamannsbraut. Nefndin álítur hitt fullnægjandi og í alla staði heppilegra, að leggja húsbónda það í sjálfsvald, hvort hann rekur unglinginn frá sér eða ekki. Taki hann það ráð, að halda honum alt að einu, er óhætt að treysta því, að hann geri það sem í hans valdi stendur til þess, að hafa góð áhrif á hann og gera nýtan mann úr honum eftir föngum.

Enn vill nefndin gera litla breytingu við 7. gr. frumv. Þar er svo fyrir mælt, að vinnutími megi ekki fara fram úr 12 stundum á dag, og að verzlunarstjórnandi megi ekki að jafnaði láta nemanda vinna frá kl. 9 á kvöldin til kl. 6 að morgni. Þarna sýnist það vera tekið aftur með annari hendinni, sem gefið er með hinni, því að það virðist vera óbeinlínis leyft, að vinnutími sé stundum 15 tímar, þó að það megi ekki vera »að jafnaði«. En svo er bætt við, að stjórnarráðið geti veitt undanþágu frá þessu, ef því þykir brýn ástæða til. Þetta ákvæði vill nefndin fella burt. Henni finst að þessi óbeina heimild, sem eg gat um áðan, til þess að hafa vinnutímann stundum alt að 15 tímum, sé ærið nóg, og engin ástæða til að heimila lengri vinnutíma undir nokkrum kringumstæðum. Því álítur nefndin sjálfsagt, að fella burtu þetta viðbótarákvæði, og vonar að háttv. deildarmenn séu á sama máli.

Fleiri breytingartillögur hefir nefndin ekki komið með, nema að fella burtu orðið »viðkomandi« í 4. línu 13. gr. Það er hortittur, sem vel má missa sig.

Nefndin vill mæla með því, að þetta frv. verði látið ganga fram. Að vísu hygg eg, að venja sú, sem skapast hefir af sjálfu sér á þessum svæðum, sé ekki mjög ólík því, sem frumvarpið mælir fyrir. Má því segja, að frumv. sé fremur þýðingarlítið. En það er þó fremur réttarbót en hitt, og því engin ástæða að hefta framgang þess.