04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Agúst Flygenring:

Eg vildi aðeins leyfa mér að beina stuttri fyrirspurn til nefndarinnar, út af athugasemdinni við gufuskipastyrkinn, um það hvað lengi Sameinaða gufuskipafélagið stendur við tilboð sitt, innan hvaða tíma það heimtar svar, því að ef á að taka því strax, þá kemur heimildin, sem gefin er í athugasemdinni, í raun og veru í bága við tilboðið. Eg býst nú við að mér verði svarað því, að þó að félagið hefði sett slíkt skilyrði, þá væri það aðeins bragð, sem óþarfi væri að óttast, en það er alls ekki rétt. Þegar menn eru látnir gera tilboð, er það venja, að þau séu öll opnuð á sama ákveðna tíma, og því tekið þegar í stað, er bezt þykir, og þetta tilboð hlýtur, eins og öll önnur tilboð, að vera bundið við svar innan einhvers ákveðins tíma. Nú er það vitanlegt, að Sameinaða félagið hefir teygt sig eins langt eins og það hefir getað, sakir Thoretilboðsins, svo að því er það fráleitt jafnmikið kappsmál nú eins og á fyrri þingum, að gengið verði að tilboðinu, og má jafnvel búast við, að það noti hverja átyllu, sem það fær, til þess að ganga frá því, og ekki get eg láð félaginu, þótt það ekki vildi láta nota sig aðeins sem fótskör, til þess að ná í eitthvað betra. Það væri sannarlega ver farið en heima setið, ef athugasemdin yrði til þess að spila úr höndum vorum því bezta tilboði sem vér líklega nokkurn tíma höfum fengið. Að öðru leyti er eg athugasemdinni ekki mótfallinn; það er gott að fá skip með kælirúmi, og það er sjálfsagt líka gott, að fá skipaferðir til Hamborgar; það gæti vel orðið til þess, að viðskiftin við Þýzkaland ykjust, og verzlunin yrði Íslendingum hagstæðari en nú er, en eg vil að málið sé vandlega íhugað, áður en því er ráðið til lykta.