24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

31. mál, hagfræðisskýrslur

Framsögumaður (Ágúst Flygenring):

Eg skal taka það fram samkvæmt nefndarálitinu, að sú nefnd, eða réttara sagt meiri hluti hennar, sem háttv. deild kaus til að íhuga þetta mál, ræður deildinni til að samþykkja frumv. En frekar get eg ekki mælt með frumvarpinu. Eg álít ekki að hér sé að ræða um neina brýna þörf, og hins vegar mundi tilgangurinn ekki nást með þessum lögum. 1. gr. frumv. inniheldur það sama, sem nú er í gildandi lögum; þar er að eins sú litla breyting gerð, að nú á að gefa upp innkaupsverð vörunnar, en áður var það útsöluverðið. Og mér er mikil spurning um, hvort réttara sé. Það er engin skylda, að leggja fram innkaupsreikninga, enda væri það tæplega næg trygging. 2. gr. ákveður, að kaupmenn og kaupfélög skuli vera skyldir að hafa staðfestan útdrátt úr farmskrám og skýra frá, hvaðan vörurnar séu fluttar, á hvaða skipi og hver sé móttakandi, en auk þess á líka að gefa upp stykkjatal, vog og rúmtak. Ef meiningin með þessu er sú, að útvega sér þekking um það, hve mörg tons flytjist af vörum til landsins, þá sýndist mér nægilegt að heimta afrit af skránum. Það mundi líka fyrirbyggja rugling, sem stafar af því, að verið er að gefa upp sama hlutinn tvisvar eða þrisvar. Þetta upplýstist í nefndinni og nefndin játaði það, en meiri hlutinn vildi þó ekki stofna frv. í voða með því, að hrófla mikið við því, líklega vegna naumleika tímans, með því að það gæti hæglega orðið frumv til falls. En 2. gr. getur afvegaleitt menn. Það mundi þurfa sérstaka skrifstofu og fólk til þess að vinna úr og rannsaka öll þessi skjöl, og samt engin trygging fyrir því, að slík skrifstofa geti orðið að tilætluðu gagni, því að mér er til efs, að allir kaupmenn haldi þessum plöggum svo vel saman, sízt í ár, þar sem þessi ráðstöfun kemur kaupmönnum alveg á óvart.

Viðvíkjandi ákvæðum 4. gr. um að gefa upp skuldir og innstæðu manna, þá hefir það lítið að þýða. Það hefir verið tekið fram, að með því sæist ekki nema ein hlið á fjárhagsástandi þjóðarinnar, því að það er ekki nóg að vita hvað mikið almenningur skuldar kaupmönnunum; maður þyrfti helzt líka að vita, hvað mikið þeir skulda sjálfir í öðrum löndum.

Frumv. hefir ekkert ákvæði um það, hvar þessi stóra skýrsla, sem landstjórnin á að láta búa til, skuli vera gerð, en mér þykir líklegt, að það mundi verða í stjórnarráðinu, og þá þyrfti eina skrifstofu í viðbót þar.

Eg er sérstaklega á móti frumv. vegna þess, að mér þykir formið á þeim nýju ákvæðum slæmt. Það ætti að búa út nýtt frumv. í öðru formi, annari flokkun o. s. frv.

Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en býst við því, að eg muni koma með örlitla breyt.till. við 3. umr., ef frumv. verður samþykt nú.