24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

31. mál, hagfræðisskýrslur

Gunnar Ólafsson:

Háttv. framsögum. lýsti því yfir í byrjun ræðu sinnar, að hann væri með þessu frumv., enda þótt hann fyndi ýmsa agnúa á því. En í lok ræðunnar heyrðist mér ekki betur, en að hann segðist vera frumv. mótfallinn, og býst eg við, að það hafi verið mismæli. Hann sagði, að tilgangurinn næðist ekki með þessum lögum, og hann taldi eins gott, að skýrt væri frá útsöluverði á vörunum sem innkaupsverðinu. En eg og fleiri telja mest um vert, að fá vitneskju um hið sanna verð vörunnar, þegar hún er komin hingað til landsins, innkaupsverð hennar að viðbættu flutningsgjaldi. Eins og stendur, veldur það miklu rugli og gefur alveg skakka hugmynd um hið sanna ástand, að innfluttar vörur eru reiknaðar í verzlunarskýrslunum með útsöluverði en ekki innkaupsverði. Enda sýna nú þessar skýrslur svo mikinn mismun á innfluttum og útfluttum vörum úr landinu, að með sama áframhaldi mundi svo sýnast eftir fá ár, að landið væri sokkið í alveg óbotnandi skuldir.

Háttv. þm. Var líka á móti því, að kaupmenn gæfu staðfestan útdrátt, en vildi hafa afrit, og er það víst misskilningur. Þetta, að gefinn sé útdráttur, er einmitt gert kaupmönnum til hægðarauka, svo að ekki þurfi að gefa afrit af öðru en því, sem nauðsynlegt er fyrir skýrslurnar til að sjá hvað fer út og kemur inn; hitt yrði alt of mikið, að afrita alveg »connossementin«.

Hv. þm. geðjaðist heldur ekki að því, að ekkert ákvæði væri um það, hvar semja skyldi skýrslurnar, en eg býst við að háttv. þm. viti, hvert kaupmenn senda skýrslur sínar nú, og þykist eg vita að sama aðferð verði höfð áfram. Verði þetta nokkuð verulegt verk, þá er það sjálfsagt, að bæta við einum manni eða fleirum ef þarf, en að þurfi að setja á stofn sérstaka skrifstofu til þessa, nær vitanlega engri átt.

Hann hélt líka, sami háttv. þm., að kaupmenn mundu ekki halda saman þessum plöggum, þ. e. farmskrám og hleðsluskírteinum, en hv. þm. ætti þó að vera það kunnugt, að allir kaupmenn telja sér nauðsyn, að halda öllum þessum skjölum saman að minsta kosti árlangt.

Hann kunni heldur ekki við, að skylda kaupmenn til að gefa skýrslu um skuldir og inneignir manna, og veit eg ekki, hvaða ástæðu hann hefir fyrir því. Eg get ekki verið honum samdóma um það, því það hefir að mínu áliti mikla þýðing, að vita um skuldir manna í landinu, verzlunarskuldir. Það yrði auðvitað ekki bætt úr skuldasúpunni með þessu ákvæði, en það er bæði fróðleikur og getur komið að gagni að vita slíkt. Hitt væri ef til vill að ganga nokkuð nærri persónulegu frelsi manna, að skylda þá til þess, að segja til um sínar eigin skuldir, enda er ekki farið fram á það í frumvarpinu.