24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

31. mál, hagfræðisskýrslur

Sigurður Stefánsson:

Frumvarp það, sem hér liggur fyrir háttv. deild, gerir ráð fyrir töluverðri breyting frá því sem nú er, og það breyting, sem eg verð að telja til verulegra bóta. Eins og skýrslunum er nú hagað, eru vörurnar tilfærðar með útsöluverði, og slíkar skýrslur gefa mjög villandi hugmynd um viðskiftahag landsins, eins og háttv. þm. V.-Sk. hefir tekið fram. Þær gefa öldungis ranga hugmynd um hlutfallið á milli aðfluttrar og útfluttrar vöru, sem skiljanlegt er, þegar þess er gætt, að skýrslumar telja innfluttu vörurnar með því verði, sem komið er á þær, þegar búið er að leggja á þær fyrir innlendum kostnaði, ágóða kaupmannsins og tolli til landsjóðs. Enda held eg að hverjum manni, sem liti yfir skýrslurnar frá síðustu árum og gengi út frá því, að þær væru réttar, hlyti að blöskra það, hvað efnahagur þjóðarinnar færi árlega versnandi. Því að það verður ekki annað séð á skýrslunum, eins og þær koma fyrir, en að svo sé. Skýrslurnar 1902—1906 sýna spegilinn af þessu:

Árið 1902 hafa aðfluttar vörur hlaupið ... kr. 10,737,480

en útfluttar vörur ... — 9,199,494

1903 aðflutt .... — 11,938,294

— útflutt .... — 8,985,507

1904 aðflutt ... — 11,778,555

— útflutt .... — 8,742,190

1905 aðflutt.... — 14,466,931

— útflutt.... — 12,103,866

1906 aðflutt ... — 16,667,177

— útflutt ... — 12,226,767

Af þessu yfirliti sér maður, að það nemur um 14 miljónum króna á þessum 5 árum, sem aðflutta varan hleypur meira en útflutta varan, og mismunurinn fer sívaxandi. Manni verður fyrst fyrir að halda, að landið sé að sökkva sér dýpra og dýpra í skuldir. En þegar það er athugað, að tollur og framfærsla í kaupmannsins er meðtalin í verði aðfluttu vörunnar, þá hlýtur auðvitað hver maður að sjá, að skýrslurnar eru algerlega rangar. Enda ætti landið sorglega framtíð fyrir höndum, ef svo væri ekki, því að þá mundi öll þjóðareign Íslendinga verða gersamlega horfin eftir nokkur ár.

En þess er að gæta, að útlendingar, sem ekki þekkja til, hvernig skýrslurnar eru í garðinn búnar, þeir hljóta að fá þá hugmynd, þegar þeir sjá þær, að landið sé alt af að safna skuldum ár frá ári. Þarna er mjög mikið í húfi fyrir lánstraust þjóðarinnar. Úr þessu á frumvarpið að bæta. Það er augljóst, að þingið verður að gera sitt til þess, að meiri trygging sé fyrir því, að skýrslurnar séu nokkurn veginn réttar. Lánstraust þjóðarinnar er nú þegar á nokkuð völtum fæti og það má ekki með lögum rýra enn meir eða grafa grundvöllinn undan því litla lánstrausti, sem vér höfum. Því eru ákvæðin í 1. gr. frumv. alveg nauðsynleg, og sjálfsagt að samþykkja þau. Það ríður á að hafa skýrslurnar réttar. Þá er von um, að þær fremur auki lánstraust landsins en rýri það.

Hvað 2. gr. snertir, þá játa eg, að eg get illa dæmt um ákvæði hennar. En eg skoða það svo, að þau ákvæði séu til frekari tryggingar fyrir því, að 1. gr. sé stranglega fylgt. Það er áríðandi, að það sjáist á skýrslunum, ekki að eins hvaðan varan er flutt til landsins, heldur líka og miklu fremur, hvar hún hefir verið keypt. Það atriði er mjög þýðingarmikið til þess að geta séð nákvæmlega, hverja stefnu verzlunarviðskiftin við útlönd taka.

Eins og háttv. þm. V.-Sk. tók fram, er það einnig mjög áríðandi, að hafa glögt yfirlit yfir verzlunarskuldir landsmanna. Út úr þeim tölum geta einstaklingamir dregið mikilvæga lærdóma. Sá fróðleikur getur haft mikla þýðingu fyrir ýmsar ráðstafanir og útreikninga. Hér er ekki að ræða um að ganga nærri frelsi kaupmanna eða hnýsast inn á þeirra starfsvið, því að þeir eiga að eins að gefa »summariskt« yfirlit yfir skuldirnar.

Eg álít frumv. gott, og tel það mjög illa farið, ef það kemst ekki gegnum þingið.

Hvað það snertir, að frumv. muni vera undirbúningur undir það, að lögbjóða farmgjöld, þá get eg fullvissað háttv. þm. um að svo er ekki. En færi svo, að mönnum sýndist ráðlegt, að grípa til þess að lögleiða farmgjöld, þá væri áríðandi, að hafa áreiðanlegar skýrslur að byggja á. Hvort sem frumvarpið um farmgjöld, sem nú liggur fyrir þinginu, verður samþykt eða ekki, þá getur þó rekið að því, að löggjafarvaldið taki það ráð, til þess að auka tekjur landsjóðs. Að minsta kosti hefir milliþinganefndin í skattamálum getið þess, að til þess gæti komið.

Af þessum ástæðum vil eg mæla með frumv. eindregið og vona, að það nái samþykki háttvirtra deildarmanna.