24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

31. mál, hagfræðisskýrslur

Framsögum. (Ágúst Flygenring):

Eg get ekki verið að svara því atriði í ræðu háttv. þm. V.-Sk., þar sem hann var að spauga um það, að eg væri meðmæltur frumvarpinu. Meiri hluti nefndarinnar er því meðmæltur, og það sem eg sagði frumvarpinu til meðmæla, sagði eg að eins fyrir hans hönd.

Hitt, sem hann lagði áherzlu á, að þessar skýrslur, sem kaupmenn eiga að gefa, eigi að vera útdráttur en ekki afrit, þykir mér skrítið, þegar litið er til 1. gr. frumv. Eg skal líka geta þess, að það er ekki tekið fram í 1. gr. alt, sem ætti að vera í þessum skýrslum.

Háttv. þingm. hélt því fram, að allir kaupmenn héldu »connossementum« saman, að minsta kosti fyrir eitt ár. Þetta er ekki rétt. Það eru margir eða flestir kaupmenn sem hafa sérstaka »Fragtkonto«, færa þar inn allar útborganir fyrir farmflutning og láta sér það nægja. Enda er alls engin þörf á að halda skjölunum saman. Maður heldur þeim auðvitað, þangað til maður hefir gengið úr skugga um, að varan er komin. En lengur þýðir ekki að geyma þau; þá eru þau eins og hver önnur ónýt skjöl.

Að því er verzlunarskuldirnar snertir, þá fór eg um það atriði mjög hógværum orðum. Eg gat þess, að það væri ekki nema ein hliðin á því, sem maður þyrfti að kynnast í fjárhagsástandi þjóðarinnar; hún gæti verið villandi út af fyrir sig og kæmi því að litlu gagni. Eg get fullvissað háttv. þingm. V.-Sk. um það, að verzlunarskuldir manna minka heldur ekkert við það, þó að frumvarpið verði samþykt með þessu ákvæði í.

Háttv. þingm. Ísf. lagði áherzlu á 1. gr. frumv. og það, að skýrslurnar, eins og þær nú eru, væru villandi, hvað snertir skuldir þjóðarinnar við útlönd, af því að útsöluverðið er tilfært. En við hvaða verð á að miða? Hvar á kostnaðurinn við vöruna að koma fram? Það er yfir höfuð ómögulegt að segja, hvað sannvirði vörunnar er. Og menn þurfa ekkert að kippa sér upp við það, þó að það komi fram mismunur á aðfluttri vöru og útfluttri vöru. Mismunurinn er ekki meiri en búast má við; líklega nálægt 10—15%, sem er alls ekki mikið, þegar með er talinn tollur, ágóði kaupmanns og það sem gengur til þess að reka verzlunina og ávaxta féð, sem liggur í henni. Eg held að þessi mismunur sé ekki svo mikill, að nokkur þurfi að hræðast það, að landið sé að sökkva sér niður í skuldir. Útlendingar munu ekki hneykslast á mismuninum, þegar þeir vita það, að tollur og allur kostnaður er innifalinn í honum.

Enn er lögð áherzla á, að eftir frumv. eigi að sjást á skýrslunum, hvaðan varan sé keypt. Eg man ekki betur, en að það sé tilfært í skýrslunum nú.

Hvað snertir ártalið og það samband, sem eg gat um að mundi vera milli þessa frumvarps og væntanlegs frumvarps um farmgjald, þá skal eg aðeins geta þess, að eg var ekkert að hafa á móti farmgjaldi. Eg tók það að eins fram, að það væri ónauðsynlegt, að ákvæði 2. gr. giltu frá ársbyrjun 1909, eða áður en frumvarpið að öðru leyti kemur í gildi.

Eg verð enn að taka það fram, að þar sem eg sé enga ástæðu til að leiða þetta í lög, þá get eg ekki annað en verið á móti frumvarpinu, og þykist hafa fært fullnægjandi ástæður fyrir þeirri afstöðu minni.