04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Steingrímur Jónsson:

Eg vildi leiðrétta þann misskilning hjá hinum háttv. þm. Akureyrar, að það kæmi nú fyrst upp úr dúrnum, eftir dúk og disk, að bæta þyrfti við nýjum þráðum á aðallínunni, sakir hinna nýju aukalína. Símastjórinn tók það fram þegar í byrjun, að það myndi þurfa 5 þræði. Þar sem sami háttv. þm. sagði að mál þetta hefði ekki verið undirbúið í tíma, þá er þar til að svara, að Siglufjarðarsíminn stóð ekki á stjórnarfrumvarpinu, en var settur inn af einstökum þingmönnum í Nd., en undir eins og símastjóri frétti það, skrifaði hann þinginu, og skýrði frá að þá yrði nauðsynlegt að bæta við þræði á aðallínunni. Hinn háttv. þm. á því ekki að saka símastjóra heldur sjálfan sig um það, ef þetta hefir komið flatt upp á hann, því að það er þá því að kenna, að hann hefir ekki kynt sér skjöl málsins nógu rækilega.