03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

36. mál, sala á Kjarna

Sigurður Hjörleifsson:

Eg geri ráð fyrir, að það verði ekki langar umræður um þetta mál, og vil eg því stuttlega skýra frá, hvernig á frv. stendur. Það hefir oft áður verið ósk Akureyrar, að ná kaupum á jörðinni, til þess að bærinn gæti náð eðlilegum vexti og framförum. Það voru almennar umræður í bæjarstjórn Akureyrar síðastliðinn vetur um það, að land bæjarins væri svo lítið, að ekki væri hægt að nota það til ræktunar, svo lítið, að ekki mætti láta einstaka menn fá land til ræktunar fyrir sjálfa sig. Bærinn hefir enga haga. Bæjarstjórninni þótti þess vegna ekki hægt að komast hjá því, að ná kaupum á jörðinni, þegar það vitnaðist, að bærinn fengi ekki hagagöngu fyrir kýr sínar á næsta ári í Kjarnalandi. Þetta landleysi horfir til vandræða fyrir bæinn. Landbúnaður er ekki svo lítill á Akureyri, og þar eru margar kýr, og hefir það orðið íbúum bæjarins að miklu gagni. Þess vegna er það eindreginn vilji bæjarbúa, að landstjórnin léti meta jörðina Kjarna og yrðu gefin út sérstök heimildarlög til að selja jörðina. Því að það þarf að líkindum sérstök heimildarlög. Það er enginn vafi á því, hver gerir garðinn frægastan, Akureyri eða einstakir menn. Ef Akureyri fær jörðina, verður hún ræktuð upp kostgæfilega. Eg vona, að háttv. deild taki málinu vel og lofi því að ganga greiða leið gegn um deildina.