03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

36. mál, sala á Kjarna

Júlíus Havsteen:

Að Akureyri vill kaupa Kjarna, mun helzt vera »spekulation«. Jörðin virðist mér að minsta kosti í svipinn heldur lágt metin, sem sé 8,200 kr. Kjarni er einhver fallegasta jörðin í Eyjafirði og 41 hndr. að dýrleika. Árið 1893 gaf Akureyri 13,600 kr. fyrir Eyrarland, sem er að vísu stærri jörð, en það var gefið meira fyrir hana að tiltölu, en menn virða Kjarna. Afnot Akureyrar af Kjarna get eg ekki lagt mikið í. Að jörðin sé bútuð í sundur í smábýli, get eg eigi álitið að verði sveitinni til gagns eða uppbyggingar; þvert á móti. Prýði fyrir eina jörð er einn góður bóndi, en ekki margir kotungar. Það er ekki minsta þörf fyrir Akureyri að eignast Kjarna. Kaupstaðnum fylgir mikið landflæmi bæði fyrir utan, innan og að ofan, og bætast þar við hólmarnir í Eyjafjarðará.