03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

36. mál, sala á Kjarna

Stefán Stefánsson (6. kgk.):

Hæstv. ráðherra tók það fram, að sýslunefndin hefði lagt á móti því, að jörðin yrði seld ábúanda. En einmitt þetta mælir með því, að selja hana til almenningsnota. Sýslunefnd hefir aldrei mælt á móti því, að jörðin yrði seld Akureyrarkaupstað, sem sjálfsagt yrði til þess, að hún yrði að mestum og beztum almenningsnotum. Nei, sýslunefnd hefir þvert á móti lagt á móti því, að einstakur maður fái jörðina keypta, af því að hún sé hentug til almenningsnota. Og ef sýslunefndin hefir rétt fyrir sér í þessu, er einmitt því meiri ástæða til, að Akureyri fái jörðina keypta til slíkra nota.

Hér er aðallega um það að ræða, hvort jörðin verði að betri notum í höndum Akureyrarbúa eða Hrafnagilshrepps, úr því að sýslunefnd álítur hana vera eina meðal þeirra jarða, sem ekki ber að selja einstökum mönnum. Og eg er í engum vafa um það, að þessi jörð verður betur að almenningsnotum hjá Akureyrarbúum en nokkrum öðrum. — Eg get nefnt dæmi þessu til sönnunar. Engin jörð gefur meira af sér tiltölulega, en jarðirnar Eyrarland og Naust hafa gert, síðan þær komust í hendur Akureyrarbúa. Eyrarland, fyrir utan kaupstaðarlóðina, gefur af sér 2000—2500 kr. árlega. Eg býst reyndar ekki við, að eina mikil not verði af Kjarna eins og af Eyrarlandi; en þau verða þó vafalaust meiri en nú. Háttv. 1. kgk. þm. sagði, að þetta mundi gert af »spekulation«; Akureyringar vita það, að hagur bæjarbúa eflist, ef bærinn fær Kjarna keyptan, og þess vegna vilja þeir fá hann til eignar og afnota. Þetta má hinn háttv. þm. kalla »spekulation«, ef honum þykir það orð viðeigandi. Sami háttv. þm. sagði líka, að hann skyldi ekki í því, að afnotin yrðu mikil. En hvað verður þá úr »spekúlationinni«, sem hann í hinu orðinu er að tala um. En eg er viss um, að Akureyrarbúar geta haft miklu meiri afnot af jörðinni, en Hrafnagilshreppur gæti haft. Og Hrafnagilshreppur hefði aldrei óhag af sölunni; hann mundi þvert á móti hafa hagnað af henni, því að hann fengi meiri tekjur af jörðinni en ella, t. d. hafa tekjur hreppsins af jörðinni Naustum aukist, síðan sú jörð komst í hendur Akureyrarbúa.