31.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

36. mál, sala á Kjarna

Lárus H. Bjarnason:

Af því að það er nú langt síðan málið var til 1. umr., vil eg leyfa mér að leiða athygli að því, sem eg þá hélt fram. Lögin um forkaupsrétt leiguliða gefa ábúanda og þar næst hreppi tvímælalausan rétt til, að ganga fyrir öðrum um kaup hverrar jarðar, sem seld er. Eg skal leyfa mér að lesa upp þau ákvæði laganna, sem að þessu lúta. Í 1. gr. stendur: »Þegar jarðeign, sem er í bygging, gengur kaupum og sölum, skal hún fyrst boðin til kaups leiguliða«. Og í 4. gr.: »Nú afsalar sá sér forkaupsrétti, er hann hefir samkvæmt 1. eða 3. gr. og öðlast þá sveitarfélag það, er jörð eða jarðargögn liggja í, forkaupsréttinn«. Þarna eru engar jarðir undanteknar og því ná ákvæðin í rauninni til allra jarða, jafnt þjóðjarða og kirkjujarða, sem til einstakra manna jarða, enda þó að löggjafinn hafi að öllum líkindum aðallega hugsað til einstakra manna jarða. Háttv. flutningsm. leggur áherzlu á orðin: »gengur kaupum og sölum«, og vill skilja þau svo, að aðeins sé átt við þær jarðir, sem vanalega eru seldar, eða svokallaðar bændajarðir. En það er ekki rétt, að leggja annað í orðin en það, að þegar jörð er seld, skal hún fyrst boðin ábúanda og síðan hreppi. Jarðeign, sem gengur kaupum og sölum, þýðir ekki annað en jarðeign, sem er seld.

Þetta er líka eðlilegasti skilningurinn, þegar litið er á tilgang laganna, þann að styðja að því, að sem flestar leigujarðir komist í sjálfsábúð. Verði jörðin seld Akureyri, er brotinn skýlaus réttur hreppsins, úr því að ábúandinn er genginn frá og hreppurinn vill sitja fyrir kaupunum. Hins vegar ætti helzt ekki að selja þessa jörð, hvorki ábúanda, hreppi né öðrum, þar sem hlutaðeigandi sýslunefnd hefir lýst því yfir, að jörðin mundi vera líkleg til almenningsnota. En eg vil að eins halda fast við það, að ef hún verður seld, þá ber að fara eftir lögunum um sölu þjóðjarða, og láta ábúanda ganga fyrir og þar næst hreppinn.

Því síður ber að selja Akureyrarkaupstað jörðina, sem Hrafnagilshreppur yrði þá að súpa seyðið af því, hvernig Akureyringar ráðstöfuðu henni, eins og háttv. 1. kgk. þm. benti á. Það getur vel verið, að jörðinni verði ráðstafað þann veg, að sveitarþyngsli Hrafnagilshrepps færu mjög tilfinnanlega vaxandi. Því væri réttast, ef jörðin mót von verður seld Akureyri, að leggja hana þá líka undir lögsagnarumdæmi Akureyrar.