31.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

36. mál, sala á Kjarna

Júlíus Havsteen:

Eg skal ekki vera langorður. Flutningsm. bar mér á brýn, að eg hefði borið upp á meiri hlutann, að tilgangur Akureyrar væri að koma af sér fátæklingum á Hrafnagilshrepp og útvega þeim hæli þar. Eg veit ekki betur en að þetta standi berum orðum í nefndarálitinu. Þar stendur, að lögin nr. 60 frá 1907 auki mjög »aðstreymið að bæjunum af bláfátæku fólki«. Og þessa bláfátæku menn vilja Akureyringar losna við aftur, með því að koma þeim að Kjarna. Það er ástæða til að taka fram, að þetta getur líka átt við útlendinga, svo sem Norðmenn; alt það fólk, sem Akureyringar geta ekki hýst sjálfir og vilja losna við, á að fara í Hrafnagilshrepp. Hreppurinn hefir rétt til að vera varinn gegn slíku, og eg vil leggja það fastlega til, að þingið neiti sölunni.