31.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

36. mál, sala á Kjarna

Steingrímur Jónsson:

Háttv. þm. Akureyrar hefir misskilið orð mín, ef hann heldur að eg sé fallinn frá þeirri aðalástæðu móti sölunni, að Hrafnagilshreppur hafi forkaupsrétt að Kjarna og vilji halda honum. Eg ætlaðist til, að hver maður með nokkurn veginn skynsemd skildi það, að eg er enn á þeirri sömu skoðun, að verði gefin lög um sölu Kjarna til Akureyrar, þá fara þau í bága við lögin um forkaupsrétt leiguliða, hvort sem þau gera það beint eða óbeint. Ef selja á jörð öðrum en leiguliða, þá gildir 4. gr. þessara laga þar um, hvort sem það er beint eða »pr. analogi«. (Lárus H. Bjarnason: Hann skilur ekki orðið »analogi«). Þetta segi eg til þess ekki sé hægt að segja að við höfum verið með »Spilfægteri«. Hann bar okkur andmælendum sölunnar á brýn, að við hefðum hlaupið úr einu vígi í annað, kæmum með nýjar staðhæfingar, þegar þær gömlu væru hraktar, eins og hann komst að orði. En það nær auðvitað ekki nokkurri átt. Eg tók það greinilega fram við l. umr. málsins, að ástæður mínar til að vera á móti sölunni væru, í fyrsta lagi sú, að Hrafnagilshreppur hefði forkaupsrétt að jörðinni, í öðru lagi, að verðið væri alt of lágt, og enn fleiri, sem eg fann ekki ástæðu til að geta um þá.

Að því er verðið snertir, hygg eg, að eg hafi eins góða möguleika til að meta jörðina rétt, sem háttv. þm. Akureyrar. Samkvæmt stöðu minni er eg betur inni í slíku, og þekki meira til virðinga á jörðum en hann.

Eg neita því ekki að mörgum mönnum í bænum sé það áhugamál, að fá jörðina keypta. En eg þóttist ekki fara með neitt bæjarslúður, þó eg hefði eftir kunnugum mönnum, að margir í bænum væru á móti kaupunum. Eg hefi heyrt að mikil mótstaða sé móti þeim í norðurhluta bæjarins, enda mundu bæjarbúar í þeim hluta bæjarins fult eins kjósa, að land bæjarins yrði stækkað norður á við.