02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

36. mál, sala á Kjarna

Framsögum. (Sig. Hjörleifsson):

Eftir umr. um þetta mál gæti litið svo út, sem hér væri um stórmál að ræða. En eg skal ekki vera langorður í þetta sinn.

Eg vildi aðeins stuttlega svara því, sem háttv, 1. kgk. þm. talaði um að þessi sala yrði Hrafnagilshreppi til tjóns. Eg þykist satt að segja hafa fært rök fyrir því gagnstæða, og skal bæta enn þá dálitlu við. Ef Akureyrarbær eignast Kjarna, þá er mjög líklegt að þar verði komið upp stóru kúabúi, t. d. með 30 kúm til að byrja með. Jörðin getur að vísu ekki fætt svo margar kýr sjálf, en það má gera slíkt með kraftfóðri. Og mér fyrir mitt leyti þykir það undarlegt, ef það á að vera til tjóns eða óheilla Hrafnagilshreppi að fá slíkt stórbúa, enda þó það yrði Akureyri líka til gagns.

Viðvíkjandi br.till. á þskj. 416, þá get eg ekki annað séð, en að hún sé fjarstæða; það er svo langt frá, að hún sé á rökum bygð, enda heyrði eg engin rök af munni háttv. 4. kgk. þm., þegar hann talaði um hana. Hann hélt því fram, að jörðin gæfi af sér 1000 hesta af nautgæfu heyji. Þetta get eg ekki skilið öðru vísi en að það hafi verið mismæli. Eg verð líka að kalla þetta undarleg ummæli, þegar menn hafa fyrir sér orð dómkvaddra manna, og eg veit ekki hverjir ættu betur að vita um jörðina, heldur en einmitt þeir, sem undir eiðstilboði rannsaka hana og gefa skýrslu um hana. Og þessir matsmenn segja einmitt, að jörðin gefi af sér 600 hesta af útheyi og 120 hesta af töðu.

Um Eyrarland og Naust er það að segja, að salan á þeim er ekki sambærileg við sölu á Kjarna, því að Kjarni liggur fyrir utan bæinn, en hinar jarðirnar í bænum.

Þessi tillaga hlýtur að vera fram komin í þeim tilgangi, að gera Akureyrarkaupstað ómögulegt að kaupa jörðina. Því að það er hvorttveggja, að það er ekki auðvelt að fá »kapital« til slíkra kaupa, og hinsvegar ekki vænlegt að kaupa, þegar það er auðséð þegar í byrjun, að of dýru verði er keypt.