02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

36. mál, sala á Kjarna

Lárus H. Bjarnason:

Það lítur út fyrir, að það sé ekki hægt að sannfæra háttv. deild um það, að réttur Hrafnagilshrepps sé brotinn með þessu frumv. Nú hefir mér dottið í hug ráð til þess, að verja Hrafnagilshrepp fyrir þeim óþægindum, sem af sölunni kunna að leiða fyrir hann; en eg get því aðeins komið því fram, að málið verði tekið útaf dagskrá núna. — Eg ætla að koma með breytingartillögu í þá átt, að jörðin verði lögð undir lögsagnarumdæmi Akureyrar. — Það getur vel verið að Akureyri ali fleira á jörðinni en kýr, þegar frá liða stundir. Það getur verið að hún verði pörtuð í sundur handa mörgum fjölskyldum, og að þær fjölskyldur verði til þyngsla fyrir Hrafnagilshrepp. Eg sé ekkert ráð til að sett verði undir þann leka annað en það, sem eg nefndi, að leggja jörðina undir lögsagnarumdæmi Akureyrar. Eg ætla að koma með breytingartillögu í þá átt, ef mér gefst kostur þess, og í því skyni bið eg hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá.