02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

36. mál, sala á Kjarna

Steingrímur Jónsson:

Háttv. þm. Ak. sagði að eg hefði engin rök fært fyrir verðhækkun þeirri, sem eg hefi stungið upp á. Annaðhvort hefir háttv. þm. ekki heyrt ræðu mína, eða hann skilur annað við rök en aðrir menn. Eg sagði að eg áliti ófært að selja góða jörð með 1000 hesta heyfalli, rétt hjá Akureyrarkaupstað, fyrir minna en 12000 kr. Eg benti á, að það þykir ekki mikið að borga 1 kr. í eftirgjald fyrir hverja 2 hesta á góðu slægjulandi. 1000 hesta heyfall gerir þá 500 kr. árstekjur af því einu, og þegar beitiland bætist við, og aðrar nytjar jarðarinnar, má óhætt gera ráð fyrir að hafa megi upp úr jörðinni 800 kr. á ári. Eg rengi ekki virðingu hinna dómkvöddu manna. En þess er að gæta, að þeir fara eftir 10 ára meðaltali, og eg hefi ástæðu til að ætla, að heymagn á jörðinni hafi aukist mjög á þeim tíma, og getur aukist ennþá til muna án mikils tilkostnaðar. Hvað sem því líður, þá hefir kunnugur maður sagt mér, að jörðin hafi 5 kúa tún, og þá hlýtur túnið, eftir norðlenzkum mælikvarða, að gefa af sér 150 hesta af töðu. — Mér þykir ekkert undarlegt, að virðingarmennirnir hafa ekki virt jörðina hærra. Því að þeir miða við kjör leiguliða á landsjóðsjörðum, sem vitanlega hafa allir við mjög góð kjör að búa. Virðingarmenn hafa fylgt þeirri meginreglu, sem gert er ráð fyrir í lögum um sölu þjóðjarða, að miða við meðal landskuld á síðustu 10 árum. En þó að leiguliðum, sem kaupa ábýlisjarðir sínar, sé ívilnað á þennan hátt, er engin ástæða til að ívilna Akureyrarkaupstað. Ef hann þarfnast svo mjög jarðarinnar, sem sagt er, þá hefir hann líka ráð á að borga hana fullu verði. En ef hann hefir ekki þörf fyrir hana, þá á hann heldur ekki að fá hana undir neinum kringumstæðum.

Háttv. þm. gat þess, að ef Akureyrarbær keypti jörðina fyrir 12000 kr., þá yrði hann að borga svo háa leigu, þegar meðreiknaðar væru 200 kr. til ekkjunnar, að í raun og veru samsvaraði 20 þús. kr. kaupverði. Þar til er því að svara fyrst og fremst, að okkur kemur ekkert við, hvað Akureyringar borga ekkjunni. Í öðru lagi þekki eg illa til, ef Akureyringar heimta ekki sömu kjör, sem aðrir hafa, þeir er landsjóðsjarðir kaupa, og þá bættist það ofan á hið ósæmilega lága verð, að þeir fengju 9/10 parta jarðarverðsins lánaða, með þeim vildarkjörum, sem heimiluð eru eftir lögunum um sölu þjóðjarða. Enda eiga þeir fullan rétt á því, samkvæmt þeim lögum, og því kæmi ekki til neinna vandræða fyrir kaupstaðinn, að útvega »kapítal< til kaupanna, sem háttv. þm. Ak. virtist bera kvíðboga fyrir. — Hvað snertir þessar 200 kr. til ekkjunnar, þá er það að vísu satt, að það getur orðið töluverð fúlga, ef hún lifir lengi. En landsjóður getur ekki tekið tillit til þess eða hans ráðamenn. Annaðhvort hefir þessi samningur við ekkjuna verið ráðleysa, og þá verða Akureyringar sjálfir að bera afleiðingarnar af því, eða þá að þeir hafa séð sér farborða, að fá hallann bættan á annan hátt en þann, að fá jörðina fyrir þeim mun lægra verð hjá landsjóði.

Það er ekki á neinum rökum bygt, að þessi breytingartillaga mín sé framkomin til þess að eyðileggja málið.

Háttv. þm. Ak. byrjaði ræðu sína á því, að það liti út fyrir að þetta væri stórmál. Jú, eg er á sama máli. Það lítur að minsta kosti út fyrir, að það sé stórmál frá hans hlið, og hans flokki kappsmál.

Eg ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma, en aðeins ítreka það ennþá, að ef jörðin verður seld, eru brotin »princip« laganna um forkaupsrétt leiguliða, og einnig laganna um sölu þjóðjarða og kirkjujarða.