23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

36. mál, sala á Kjarna

Framsögumaður (Sig. Hjörleifsson):

Eg verð að játa, að mér er ekki fullljós afstaða háttv. 1. kgk. þm. í þessu máli. Við fyrri meðferð málsins hér í deildinni komst hann að þeirri niðurstöðu, að það verð, sem þá var um að ræða, væri sanngjarnt, en það hefir hann bygt á því, að hann hefir haft fyrir sér virðingu óvilhallra manna; en í þeirri virðingargjörð er einmitt gengið út frá því, að jörðin liggur nálægt Akureyri, að þar er hagaganga fyrir 60 gripi, sem ekki geta komið annarstaðar frá en frá Akureyri. Mér er þess vegna óskiljanlegt, hvers vegna hann vill nú alt í einu færa verð jarðarinnar úr 8000 upp í 12000 kr. Þar sem háttv. 5. kgk. talaði um að rétt væri að flytja jörðina inn í lögsagnarumdæmi Akureyrar, þá liggja góðar og gildar ástæður fyrir því, að sú breyting var ekki gerð á frumv. í Nd , nfl. þær ástæður, að Hrafnagilshreppur hefir alls ekki farið þess á leit, en það hefði hann eflaust gert, ef hann hefði álitið það ávinning fyrir sig. Eg álít þvert á móti að ef það væri gert, þá væri gengið töluvert nærri Hrafnagilshreppi, og eg sé enga ástæðu til að fara fram á þetta einmitt vegna Hrafnagilshrepps. En að Nd. ekki hefir sett það ákvæði inn í frumv., sýnir ekkert annað en það, að henni hefir ekki þótt það heppilegt.