25.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

38. mál, skipun læknishéraða

Kristinn Daníelsson:

Efni þessa frumv., sem hér liggur fyrir, er að skifta Þingeyrar læknishéraði í 2, eða með öðrum orðum að stofna nýtt læknisdæmi með bústað á Flateyri. Eg býst við að háttv. þingdeildarm. komi þetta ekki á óvart, því að það hefir áður legið fyrir þinginu, og mátti búast við því, að það kæmi fram nú. Því auðnaðist ekki að verða samferða læknisdæmaskipuninni á þinginu 1907, en það vil eg þó ekki lasta, því að það var eðlilegt, að varlega væri farið, þegar læknishéruðum var fjölgað svo mjög, og það kostar mikið fé. En þótt því hlotnaðist ekki að komast lífs af gegn um þingið 1907, þegar læknaskipunarlögin voru endurskoðuð og samþykt, þá vil eg samt sem áður ekki láta það undir höfuð leggjast, að koma fram með það nú. Frá mínu og flestra þeirra sjónarmiði er til þekkja, er það að eins tímaspursmál, hvenær læknir verður settur þarna.

Það er fyrir löngu vaknaður áhugi hjá héraðsbúum um að fá þetta læknishérað stofnað, og skilja Þingeyrarhérað í sundur. Þetta hefir vakað svo ríkt fyrir héraðsbúum, að þeir voru í fyrstu að hugsa um, að leggja sjálfir fram fé úr eigin vasa til þess að launa lækninum. En seinna, þegar læknaskipun landsins var tekin til meðferðar og fjölgað var læknishéruðum, þá sendu þeir beiðni til þingsins um þetta, þar sem þeim þótti þá minni ástæða til, að leggja sjálfir fé fram. Þeir sem til þekkja og eru kunnugir á þessum stöðvum, vita vel, að hvergi hér á landi er erfiðari og dýrari ferðalög en á Vestfjörðum. Það kemur því mjög þungt niður á þeim, sem þurfa að sækja lækni. Eg vil að eins nefna eitt dæmi, hvernig það getur riðið á lífi manna, að svo langt er til læknis.

Einn helzti bóndinn í Súgandafirði lá fyrir dauðanum, og það skifti að eins því, að hægt væri að nógu fljótt að ná í lækni. Það var sent til Ísafjarðar, af því að þangað var styttra, þótt yfir mjög erfiðan fjallveg sé að sækja, en læknirinn fékst ekki. Þá var farið til Þingeyrar, en þegar læknirinn kom þaðan, var maðurinn dáinn. Svona mætti telja mörg dæmi, þar sem líf og hel berjast að eins vegna læknisleysis.

Læknisferðir eru afardýrar þarna, og þar kemur greinilega í ljós það misrétti, sem á sér stað á milli þeirra manna, sem þurfa að nota lækni. Kaupstaðirnir þurfa ekkert að borga fyrir ferðalög lækna, þar sem þeir eru, en aftur á móti á þessu svæði kostar hver læknisferð jafnvel tugi króna. Að vísu er ekki hægt að jafna þetta misrétti nema að leggja ferðakostnað lækna til fulls á landsjóð, en til þess verður nú ekki hugsað í bráð.

En það er ekki að eins þetta atriði, heldur ennfremur annað atriði, sem gerir það alveg nauðsynlegt að læknir sé á Flateyri, nfl. sóttvarnirnar. Það er á flestum þessum fjörðum, og Önundarfirði ekki sízt, mjög mörg skip útlend á sumrum. Það eitt atriði væri nóg til þess, að læknir væri þarna, því að sóttvörnum verður aldrei vel haldið uppi á slíkum stöðum, nema læknir sé á staðnum. Það hefir skollið hurð nærri hælum með það, að stemma stigu fyrir útbreiðslu farsótta; t. d. komu mislinga fyrir nokkrum árum, sem ekki er víst að tekist hefði að stemma stigu fyrir útbreiðslu þeirra, ef ekki hefði það verið á árstíma, sem fljótt varð náð í lækni.

Eg vil þá ekki fjölyrða meir um þetta mál, en vona að háttv. þingdeild taki málinu vel og láti það ganga hindrunarlaust. gegnum þessa deild til að mæta þeim hættum, sem fyrir því kynnu að liggja í háttv. Nd., sem eg þó vona að verði því ekki að fjörtjóni.