25.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

38. mál, skipun læknishéraða

Lárus H. Bjarnason:

Eg hefði fallið frá orðinu, ef háttv. þm. V.-Ísf. hefði endað ræðu sína öðru vísi en hann gerði. Eftir því, sem ráða mátti af niðurlagsorðum hans, ætlast hann ekki til að nefnd verði skipuð í málið. En það nær engri átt; hitt lagi nær að fella það strax. Það er að eins af kurteisi við háttv. þm., að eg greiði ekki strax atkv. móti málinu.

Það var víst landlæknirinn, sem mest og bezt gekst fyrir læknamálinu 1907, og þótti flestum hann ganga fulllangt, meðal annars í fjölgun læknishéraða, en nú kemur það þó í ljós, að hann hefir ekki farið nógu langt. Í Ísafjarðarsýslu eru nú 4 læknishéruð eða að minsta kosti 4 læknar, að aðstoðarlækninum á Ísafirði meðtöldum. Nú eiga þeir að verða 5. Hvar á þetta staðar að nema, máske þá fyrst þegar læknir er kominn í hvern hrepp. Dæmi það, sem flutnm. tók, er lítil sönnun; slíkt getur komið fyrir þó að ekki sé nema yfir bæjarlæk að sækja, og erfiðleikarnir á þessu svæði eru miklu minni en víðast hvar annarstaðar á landinu, miklu minni en sumstaðar annarstaðar í Ísafjarðarsýslu. Annars fer þetta frumv. fram á að fjölga embættismönnum að óþörfu, og það eftirlaunamönnum, og ætti því ekki að fá mikinn byr, sízt hjá háttv. meiri hluta. Eg sting upp á að nefnd sé sett í málið.