17.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

38. mál, skipun læknishéraða

Steingrímur Jónsson:

Eins og nefndarálitið ber með sér, gat eg ekki orðið samferða meðnefndarmönnum mínum. Eg er móthverfur báðum þessum frumvörpum, sem hér er um að ræða, og vil leggja til, að þau verði bæði feld.

Ástæður mínar eru þær fyrst og fremst, að ef þessi frumv. eru bæði samþykt, þá sé eg ekki betur, en að þar með sé óhjákvæmilega opnuð leið að mjög mikilli fjölgun læknishéraða víðs vegar á landinu, því að þörfin er víða eins mikil og meiri. Það eru nú þegar 3 slík mál í neðri deild, og ef öll þessi 5 frumvörp um fjölgun lækna verða samþykt, þá má reiða sig á, að þess konar kröfur drífa að úr öllum áttum. Hvar á þá að enda? Á að setja lækni nálega í hvern hrepp á landinu? Slík fjölgun lækna væri fyrst og fremst óbærileg kostnaðar vegna, og enn fremur mjög óheppileg fyrir þá sök, að þá er hætt við að læknarnir yfirleitt verði lélegri. Því minni sem héruðin eru, því minni æfingu hafa læknarnir og því lélegri verða þeir. Það er víða eins mikil þörf á læknafjölgun eins og á þessum stöðum. Eg skal nefna t. d. Öræfahrepp og Grímsey. Að vísu fær Öræfahreppur nokkra hjálp, en mjög lítilfjörlega í samanburði við það, ef þeir fengju sérstakan lækni.

Enn er þess að gæta, að ef læknahéruð verða lítil, þá er alveg víst, að læknar fara að sækja um launaviðbætur.

Alþingi þarf ekki að kippa sér upp við það, að beiðnir líkar þessum komi fram. Sama átti sér stað eftir að læknaskipunarlögin frá 1899 komu í gildi. Þá komu strax beiðnir úr ýmsum áttum um að fjölga læknum. En alþingi sinti því ekki, af því að það leit svo á, að heppilegra væri að endurskoða lögin í heild sinni, en að breyta hér og hvar með sérstökum lögum. Þessari stefnu ætti einnig að fylgja nú, því að öðru vísi er ekki auðið að hafa neina tryggingu fyrir því, að nokkurt samræmi sé í skipun læknishéraða á landinu yfirleitt. — Af þessum ástæðum get eg ekki annað en verið móti báðum þessum frumvörpum.

Eg vil enn fremur benda á það, að það er alls ekki víst, að hve miklu liði það kæmi héruðunum, þó að þessi frv. yrðu að lögum. Það hefir reynst svo, að það hefir verið mjög erfitt og jafnvel alveg ómögulegt sumstaðar, að fá nokkra lækna í fámennustu læknishéruðin. Væri ekki ólíklegt, að svo færi einnig um þessi héruð, sem hér er ætlast til að verði stofnuð, því að þau verða einmitt með allra fámennustu héruðum landsins, sérstaklega Reykjarfjarðarhérað. Í héraðinu, sem stofna á í nyrðri hluta Strandasýslu, eru ekki nema eitthvað á 4. hundrað íbúar. Um hin héruðin veit eg ekki eins vel, en það er víst, að hið fyrirhugaða Flateyrarhérað verður líka eitt af fámennustu héruðunum.