17.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

38. mál, skipun læknishéraða

Lárus H. Bjarnason:

í viðbót við það, sem háttv. 4. kgk. þm. tók fram, vildi eg minnast nokkuð á annað þessara læknishéraða, sem ætlast er til að verði skift, það héraðið, sem eg er persónulega kunnugur, Þingeyrarhérað. Það er eitt af minstu héruðum landsins, bæði að því er snertir víðáttu og fólksfjölda. Því er og svo háttað, að skiftingin kemur ekki að miklu gagni fyrir þá, sem nú eiga örðugast með að ná til læknis, fyrir Suðureyringa. Þeir verða alt að einu að fara yfir Klofningsheiði, sem er eini verulegi þröskuldurinn á vegi þeirra alla leið suður til Þingeyrar, því að Gemlufallsheiði tel eg ekki; svo að þeir verða litlu bættari, þó að læknir verði á Flateyri. — Læknirinn situr og prýðisvel á Þingeyri, því að af þeim um 2300 manns, sem búa í héraðinu, er fullur helmingur, um 1200 manns, rétt í kring um hann. Hann situr einmitt á þeim stað, þar sem mestur er fólksfjöldinn.

Eg skal líka geta þess, að í héraðinu situr ungur og ötull læknir, og er honum því varla vorkunn að fara ekki lengri leið en norður í Súgandafjörð.

Eg tek í sama streng og háttv. 4. kgk. þm., að það er ekki æskilegt að hafa læknishéruðin mjög lítil. Þá verða læknarnir latir og ónýtir með tímanum, og dugandi læknar forðast að sækja um slík héruð.

Eg veit ekki til, að neinar umkvartanir hafi heyrst frá héraðsbúum sjálfum. Að minsta kosti hafa ekki komið fram neinar háværar kröfur um skifting þessa læknishéraðs. Því sýnist lítil ástæða að fara nú að breyta til, þegar nýbúið er að endurskoða öll læknaskipunarlögin.

Það hefir verið gert svo mikið fyrir læknastétt og læknaskipun, að það er naumast við það bætandi fyrst um sinn. Fyrir 30 árum voru um 20 læknar á landinu; nú eru þeir orðnir yfir 40 og kosta árlega um 73 þús. kr. Og á frv. til fjárlaga, sem nú liggur fyrir þinginu, eru alls ætlaðar til útgjalda við læknaskipunina kr. 298,050,00 að meðtöldum kostnaði við læknaskóla, sjúkrahús o. fl.

Ef Þingeyrarlæknishéraði verður skift, koma mýmörg héruð með sams konar beiðni, og eg er viss um það, að það er víða miklu meiri ástæða til að heimta nýtt læknishérað en þarna. Eg get strax nefnt Nauteyrarbúa í Norður-Ísafjarðarsýslu; þeir standa miklu nær því að fá lækni.

Um Strandalæknishérað skal eg ekkert segja. Það getur vel verið, að þar séu svo örðugir staðhættir, að þörf sé á nýjum lækni. Því að miklu leyti verður að fara eftir staðháttum í þeim efnum. En eg held því fram, að í Þingeyrarhéraði sé um enga slíka þörf að ræða.