17.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

38. mál, skipun læknishéraða

Framsögum. (Kristinn Daníelsson):

Eg vildi leyfa mér að gera nokkrar athugasemdir við ræður þeirra tveggja háttv. þingmanna, sem síðast töluðu.

Háttv. 4. kgk. þm. sagði, að ef læknum yrði fjölgað á þessum stöðum, mundu fleiri héruð fara að þeirra dæmi og heimta nýjan lækni, og slík fjölgun lækna væri ógerningur. Eg get ekki verið honum samdóma um þetta. Eg álít einmitt sjálfsagt að fjölga læknunum, og eg veit með vissu, að það verður að fjölga þeim töluvert enn þá, til þess að þjóðin verði ánægð með læknaskipunina. Mér dettur ekki í hug að bera á móti því, að fleiri slíkar beiðnir muni koma á eftir. Eg veit að svo muni verða, og að læknunum verður fjölgað enn, ef ekki nú, þá síðar. — Hvað það snertir, að læknar muni ekki fást til að setjast að í þessum nýju héruðum, þá ætti það ekki að geta heft framgang málsins hér, því að auðvitað er gert ráð fyrir, að lögin komi þá fyrst til framkvæmdar, þegar héruðin verða veitt umsækjendum.

Þegar eg lít yfir liðinn tíma, þá finst mér það raunalegt, hverja stefnu löggjafarvaldið hefir einatt tekið í slíkum málum sem þessu. Mér rann í skap, þegar eg leit yfir það í Alþingistíðindunum, hve margar beiðnir um nýja lækna hafa komið fyrir alþingi á síðustu árum og hver svör þingið hefir jafnan gefið. Reglan hefir alt af verið að fella, fella. Og þó er það víst, að einmitt þessi mál eru þjóðinni mestu hjartans mál. Við getum trútt um talað, sem alt af eigum auðsótt til læknis, en við ættum þó að skilja það, að það er sárt fyrir fólkið, að verða að láta börn sín og ástvini deyja drotni sínum, án þess að geta leitað neinnar læknishjálpar.

Háttv. 4. kgk. þm. talaði um, að fólksfjöldinn í Strandahéraði væri sáralítill, en eg held að hann sé þó nægilegur til þess, að forsvarandi sé að setja þar nýjan lækni, þegar litið er einnig til staðháttanna. — Háttv. 5. kgk. þm. sagði og nokkuð líkt um Þingeyrarhérað, að það væri eitt hið minsta hérað landsins hvað íbúatölu snertir. Þetta er ekki rétt. Eg skal taka til dæmis strax næsta læknishérað; þar er töluvert færra fólk, líklega ekki mikið yfir eitt þúsund manns, þar sem fólksfjöldi í Þingeyrarhéraði er nálægt hálfu þriðja þúsundi. Auk þess er þar fjöldi útlendinga alt frá fyrstu vordögum til síðustu haustdaga.

Þá vil eg minnast á nokkur fleiri einstök atriði í ræðu háttv. 5. kgk. þm. Hann gerði lítið úr örðugleikunum á að ná til læknis á Þingeyri. Sagði, að Gemlufallsheiði væri ekki nema lítill háls. Því fer fjarri að þetta sé rétt. Heiðin er oft ill yfirferðar, og liggja daladrög sitt hvoru megin. Þetta ætti háttv. 5. kgk. þm. að vera kunnugt um, sem sjálfur hefir verið á þessum stöðvum. Eg get sagt fyrir mig, að eg hefi marga erfiða ferð farið yfir þá heiði.

Þá sagði hann, að 1200 manns væru rétt í kring um læknirinn. Þetta er alveg rangt; slíkt verður ekki sagt um aðra en þá, sem búa í miðhluta Dýrafjarðar, líklega nálægt 500 manna.

Enn mintist hann á, að ungur og dugandi læknir væri í héraðinu. Þetta er satt og var vel, að hann mintist á það. Því að þessi maður, sem er einhver duglegasti læknir, sem eg hefi þekt, er nú orðinn vafalaust þreyttur á örðugleikunum. Og líklega fyrir þá sök meðfram er það, að nú á þessu þingi er farið fram á fjárstyrk handa honum til annars starfa.

Háttv. þm. sagði, að mikið væri búið að gera fyrir læknaskipunina frá því fyrsta. Þetta er rétt; en það er þó ekki nærri nóg að gert enn. Það verður ekki komist hjá að gera meira. Hann tók það líka réttilega fram, að Nauteyrarhérað þarf að fá nýjan lækni. En eg get ekki játað það, að þar sé meiri þörf en í Súgandafirði.