23.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

43. mál, aðgreining holdsveikra

Framsögum. (Sigurður Hjörleifsson):

Þegar mál þetta fyrir skömmu var til 1. umræðu hér í deildinni, mætti það engri mótspyrnu. Eg vona að svo verði og í þetta skifti; að vísu tók enginn til máls við 1. umræðu nema flutningsmaður, svo að það er ef til vill ekki vel að rnarka, þótt ekki kæmu fram andmæli þá. Eins og eg tók fram við 1. umræðu, fer frumv. aðallega fram á 2 breytingar frá ástandi því, sem nú er. önnur breytingin er, að fólk, sem ekki er á sveit, geti orðið flutt nauðungarflutningi á spítalann, því að frumv. gerir ráð fyrir, að flutningurinn sé engum skilyrðum bundinn; en hingað til hafa verið töluverð vandkvæði á að koma holdsveikum sjúklingum, öðrum en sveitarómögum, á spítala, hafi þeir sjálfir verið því mótfallnir. Hin breytingin, sem er bein afleiðing hinnar fyrri, er, að allan kostnað við slíkan flutning sjúklinga á spítala, skuli greiða úr landsjóði. Helzt hefði átt að gera þessa breytingu fyr, því að enn eru víða út um landið holdsveikir menn, sem sýkingarhætta stafar af, en hins vegar er ? hluti holdsveikraspítalans þegar tómur. Eg skal leyfa mér að benda á, að annars eru engin nýmæli í 1. gr. frumv., að eins tekin upp í hana ákvæði úr 7. gr. hinna gildandi laga um þetta efni, sem af öðrum ástæðum varð að falla burtu. Að síðustu leyfi eg mér að óska þess, að málinu verði vísað til 3. umræðu.