23.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

43. mál, aðgreining holdsveikra

Ágúst Flygenring:

Eg vildi að eins geta þess, að mér þykir það nokkuð hart, að skipa svo fyrir með lögum, að á spítala skuli flytja alla þá menn, er hafa næma holdsveiki. Eg skal auðvitað játa, að ýmislegt mælir með því, það er praktískara bæði af því, að þá hefir spítalinn meira að gera, og útrýmingin gengur fljótara. En hins vegar er það hart aðgöngu fyrir fólk, er séð getur fyrir sér á annan hátt, og gætt allrar þeirrar varúðar, sem nauðsynleg er til þess að hindra útbreiðslu sýkinnar, að þurfa að fara á spítalann, þar sem menn geta látið sér líða miklu betur annarstaðar. Á spítalann fara menn til þess að deyja, og mér hefir dottið í hug, hvort það muni ekki geta flýtt fyrir dauða manna, að komast þangað. Það er kunnugt, að þar liggur í landi skæður sjúkdómur, nefnilega berklaveiki. Geti menn látið sér líða betur utan spítalans, er hart að svifta þá þeirri vellíðan, og ef til vill flýta fyrir dauða þeirra. Eg játa, að miklir örðugleikar eru á, að gera undanþágur frá lögum þessum, og hefi því ekki viljað koma fram með breytingartillögur að þessu sinni, en áskil mér rétt til þess að minnast frekar á þetta við 3. umr., og koma þá ef til vill með breytingartillögu.